09.04.1932
Efri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

239. mál, sala á hluta heimalands Auðkúlu

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég held, að það hljóti að stafa af ókunnugleika, að hv. 2. landsk. leggur á móti því, að þetta land verði selt. Talsvert af þessu landi er ræma eftir hálsi, sem kannske er 50 faðmar á breidd, og það sá vegur, þar sem kaupandi verður að setja girðingu, fyrir endann á þessari spildu. Það borgar sig illa fyrir prestinn að girða þessa spildu. En hinsvegar hagar svo til, að varla er hægt fyrir bóndann í Litladal að hleypa skepnu út svo, að hún sé ekki komin í þetta land. Það sýnist því ekki óeðlilegt, að honum sé selt landið, þegar heimajörðin hefir ekki nytjar af því. Nokkur hluti landsins er gamalt selland, sem liggur uppi í heiðinni, og það eru engar líkur til, að Auðkúla geti notað það. Hún hefir þess vegna leigt það öðrum manni eins og stendur, og það er hann, sem óskar eftir að fá það keypt. Presturinn, sem ætti að vera þessu öllu kunnugastur, mælir með sölunni, og allir kunnugir menn telja það sjálfsagt. Ég skil því ekki, að hv. d. leggi á móti þessari sölu, því að það er ekki um að ræða mikil verðmæti. Það hefir oft verið meiri ástæða fyrir ríkið að passa upp á sinn hag gagnvart sölu þjóðjarða en nú, því að það hefir oft gálauslega látið af hendi ýmsar jarðir.