15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

156. mál, barnavernd

Flm. (Jón Jónsson):

Við þrír þm., hver úr sínum flokki, hofum þann mikla heiður að flytja þetta frv. inn í d. þetta er ef til vill mesta mannúðarmálið, sem lagt hefir verið fyrir þetta þing. Takmark frv. er að tryggja það, eftir því sem stendur í valdi þjóðfélagsins, að hverju barni geti liðið sæmilega í æsku og geti náð sem fyllstum þroska, bæði líkamlegum og andlegum. En okkar heiður er ekki annar en sá, að flytja frv. Hugsjónin er frá öðrum, og nefnd karla og kvenna hér í bænum hefir algerlega búið málið í okkar hendur.

Hjá nágrannaþjóðum okkar er fyrir löngu komin á löggjöf í þessu efni, og þörfin á slíkri barnavernd er þar því fyrir löngu viðurkennd. Hjá okkur hefir þörfin að ýmsu leyti verið minni, því að hér hafa engar stórborgir verið, en þar er einmitt mest þörf á slíkri verndarstarfsemi. En eftir því sem kunnugir menn skýra frá, verður þörfin hér alltaf brynni og brynni með hverju ári. Ljóst dæmi þess er skýrsla frá lögreglustjóra, sem fylgir með þessu frv. Þar segir, að á síðustu 10 árum hafi 150 börn fyrir innan fermingaraldur verið ákærð fyrir þjófnað, og nærri má geta, að þar eru ekki talin öll þau börn, sem synt hafa af sér óráðvendni, því að þá kann ég illa skap manna, ef þeir fara að draga fyrir lögregluna öll þau börn, sem eitthvað misjafnt hafa sýnt af sér í þessum efnum. það er aðeins gert, þegar úr hófi hefir keyrt. En ástæðan til þessa er sú, að uppeldið hefir verið öðruvísi en vera átti.

Það hefir því miður stundum sýnt sig, að munaðarlaus börn njóta í uppvextinum ekki eins góðrar aðbúðar og vera ætti. Ljóst dæmi þess er mál, sem kom upp fyrir nokkru út af meðferð á veslings munaðarlausum dreng í einu héraði landsins. Menn geta hugsað sér, hvernig uppeldið og aðbúð öll muni vera, ef allskonar óregla hefir hertekið heimilið. Þess eru einnig dæmi, að fátæklingar geti ekki vandað uppeldið sem skyldi, svo að börnin verða að mestu leyti að hirða sig og hugsa um sig sjálf, lenda þá í solli og verða allskonar löstum að bráð, eins og eðlilegt er.

Þá mun það vera augljóst, að ýmsir aðstandendur barna hafa mikla þörf allskonar leiðbeininga við uppeldið. T. d. hafa ýmsar umkomulitlar mæður mikla þörf á því að geta snúið sér til n., sem veitir þeim leiðbeiningar, eftir því sem mögulegt er. Þetta allt sýnir greinilega, að kominn er tími til þess, að löggjöf sé sett til að ráða bót á þessum vandamálum.

Það má auðvitað segja sem svo, að í núgildandi lög um séu ýms ákvæði um þetta efni, t. d. í fátækralögunum og í lögum um óskilgetin börn. En slík ákvæði eru á víð og dreif og taka til ýmissa aðilja, sem skoða það ekki sem aðalstarf sitt að hafa eftirlit með slíkum málum. Eins og reynslan hefir sýnt annarsstaðar, þá verður það hér beinasta leiðin að setja löggjöf um, að nefnd skuli setja, sem hefir eftirlit með uppeldi barna.

Það skiptir vitanlega afarmiklu máli, að nefndina skipi menn, sem hafa áhuga á starfinu og vilja fórna sér fyrir það. Eflaust verður að fá þessari n. allýtarlegt vald til ýmissa ráðstafana, og verður að treysta því, að hún mundi beita því valdi með gætni og mannúð. þetta vald á að gefa henni samkv. 7.–14. gr. frv. Sumum mun ef til vill finnast það vald nokkuð mikið og nærgöngult. Það er mikið vandamál, hvernig á að koma þessu fyrir, og ég vona því, að hv. þdm. vilji athuga þetta mál vel, og þá sérstaklega frá þessari hlið málsins. Við flm. erum mjög fúsir til samvinnu við hv. þdm. um allar þær breyt., sem við álítum að standi til bóta. Ég geri jafnvel ráð fyrir, að við flytjum brtt. við frv. þetta er nýmæli í okkar löggjöf og þarf því að íhuga það vandlega.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað. til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til n., sem ætti þá að vera annaðhvort menntmn. eða allshn., og læt ég hv. d. skera úr því.