12.04.1932
Efri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

156. mál, barnavernd

Einar Árnason:

Ég efast ekki um, að gott eitt vakir fyrir þeim mönnum, sem standa að þessu frv. Ég vil heldur ekki neita því, að ekki kunni að vera svo ástatt þar, sem borgir eru og fjölmenni mikið, að þörf sé á slíkum raðstöfunum, en hér er allt öðru máli að gegna. Þetta er ennfremur svo viðkvæmt mál fyrir heimilin, að löggjöfin verður að taka varlega á því. Með þessu frv. er fyrirskipað, að í hverjum kaupstað og kauptúni, sem hefir yfir 300 íbúa, skuli vera barnaverndarnefnd. Í öðrum hreppum skal skólanefnd starfa sem barnaverndarnefnd. Þarna er því að ræða um stofnun 200 nýrra nefnda. En ég er hræddur um, að störf þessara nefnda verði sáralítil í flestum sveitum og kauptúnum hér á landi. Og þar sem verkefnin eru smá, er það reynslan, að þó nefndir séu til, sem eiga að sinna þessum verkefnum, sofa þær að meira eða minna leyti og láta ekkert til sín taka. Það mun líka verða svo, að þessar n. munu skirrast við að gera strangar ráðstafanir, sem ganga nærri einkamálum heimilanna.

Í fyrri kaflanum eru m. a. ákvæði um skipun nefndanna, en í þeim síðari eru fyrirmæli um eina allsherjar yfirbarnaverndarnefnd. Um fyrri kaflann skal ég ekki fjölyrða, en aðeins taka það fram, að ég hefði heldur kosið, að 1. gr. frv. hefði verið svo orðuð, að heimilt skyldi að setja þessar nefndir á stofn, en ekki gert að skyldu. f 7. gr. frv. eru talin upp allnákvæmlega verkefni þessara nefnda. Ég mun ekki fara sérstaklega út í það, en aðeins benda á, að nefndunum er gefin víðtæk heimild til þess að vera nærgöngular heimilunum. Ég býst ekki við að greiða atkv. móti fyrri kaflanum, og sé því ekki ástæðu til þess að fjölyrða um hann.

Þessi mál mega heita ný hér hjá okkur, og með þessu frv. er verið að leggja inn á nýja braut, en við vitum ekki, hvað mikil eða hverskonar verkefni liggja þar óunnin. Að þessu athuguðu held ég, að réttast væri að fara ekki lengra í þessu frv. en fyrri kaflinn fer fram á, að nefndirnar verði settar á stofn í kaupstöðum og kauptúnum, en yfirbarnaverndarnefndin skuli ekki skipuð fyrst um sinn. Gert er ráð fyrir, að í henni skuli sitja 7 menn, og að sjálfsögðu á þessi n. að hafa aðsetur í Reykjavík. Verkefni hennar er það, að hafa yfirumsjón með starfi nefndanna úti um land. Ennfremur er henni ætlað að hafa eftirlit með barnahælum landsins. Ég held, að réttara sé að sjá fyrst, hvernig nefndirnar úti um land starfa áður en haldið er lengra en fyrri kafli frv. gerir ráð fyrir. Ætlazt er til þess, að ríkissjóður greiði allan kostnað, sem leiðir af störfum þessarar yfirbarnaverndarnefndar. Ég held, að við getum sparað þann kostnað í bili, þessa n. væri alltaf hægt að setja á laggirnar, þegar full vissa væri fengin fyrir því, að hennar væri þörf. Ég hefi engar brtt flutt við frv. við þessa umr., en geri ráð fyrir að greiða atkv. á móti öllum síðari kaflanum. í fyrri kaflanum eru ýms smáatriði, sem orkað geta tvímælis, en þau eru ekki stærri en svo, að vel má laga þau fyrir 3. umr.