23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

1. mál, fjárlög 1933

Guðmundur Ólafsson [óyfirl.]:

Ég flyt hér eina lítilsháttar brtt. á þskj. 788, sem hv. þdm. hafa sennilega tekið eftir, en hún er um hækkun á eftirlaunastyrk til frú Margrétar Sigurðardóttur prófastsekkju á Höskuldsstöðum í Húnavatnssýslu, úr 300 kr. upp í 500 kr. Mér þykir styrkurinn lítill, eins og hann er ákveðinn í frv. handa fátækri ekkju á sjötugsaldri. Hún nýtur engrar aðstoðar frá sínum nánustu, og þó að hægt sé að segja, að sumar prestsekkjur fái ekki hærri eftirlaunastyrk en þetta, sem í frv. stendur, þá eru þó til fordæmi fyrir jafnháum styrk og þetta yrði, ef hv. þdm. vildu vera svo góðir að samþ. brtt. mína. ég álít tilgangslítið að hafa mörg orð um þetta; en ég vil þó geta þess, sem mörgum þdm. mun vera kunnugt, að maður hennar, síra Jón Pálsson á Höskuldsstöðum dó úr krabbameini eftir að hann var búinn að liggja mánuðum saman í sjúkrahúsi. Og það síðasta af efnum þeirra hjóna fór til þess að standa straum af þeim legukostnaði. Þessi hjón voru mjög vel liðin af þeim, sem þekktu þau, og heimili þeirra var í þjóðbraut. Hygg ég, að það sé ekki ofmælt, að þau hafi veitt með rausn og sæmd hverjum, sem að garði þeirra bar. Þau attu ekki nema 2 börn. Son sinn kostuðu þau í skóla og dvelur hann nú erlendis, án þess að hann hafi þar nokkurt embætti; en dóttir þeirra hefir verið heilsulítil. Efni þeirra gengu, eins og venjulegt er, til þess að mennta börnin, og svo urðu þau á síðustu búskapararum sínum fyrir því slysi, að bæjarhúsin á Höskuldsstöðum brunnu til kaldra kola, og misstu þau þar alla dauða húsmuni í brunanum, óvátryggða. Litlu þar á eftir bar heim að höndum hinn langvarandi sjúkdómur síra Jóns heit., sem leiddi hann til bana, og fór með það sem eftir var af eignum þeirra. Ég býst ekki við, að hægt sé að segja, að hv. þd. sýni of mikil flottheit, þó hún samþ. þessa till. Ég hygg, að hv. þdm. sé svo kunnugt um starfsferil þessara sæmdarhjóna af orðspori því, sem af þeim hefir farið, að ég þurfi ekki að bæta hér fleiru við, en þó vil ég minna á, að umsókn ekkjunnar um viðbótarstyrk, þar sem farið er fram á 1000 kr. árl., fylgir meðmælabréf frá nágrönnum hennar. En það er ekki nema helmingur af þeirri upphæð, sem ég hefi leyft mér að fara fram á, að þd. veiti. Þó hefir biskup ekki treyst sér til að vera eins ríflegur og ég, enda þótt hann mæli hið bezta með því í bréfi sínu, að styrkur verði veittur. Ég get nefnt það sem fordæmi, að önnur ekkja, eftir húnvetnskan prófast hefir í mörg ár haft sömu eftirlaun og þau, sem hér er farið fram á, enda þótt ástæður hennar séu miklu betri. Hún hefir átt og á enn aðstandendur, sem gátu liðsinnt henni, þó að hún sjálf væri efnalaus. Ég kann ekki við, að hafa fleiri orð um þessa brtt., enda er hún svo augljós. — Það hefir gengið heldur stirt með umr. hér í d. í dag. Ég varð að fresta fundi hálftíma fyrr en venjulegt er, af því að þdm. þurfu út úr d., en ég vona, að þeir sitji nú fastar en áður. Það hafa þó komið fram eftirtektarverð orð og till. frá þeim þdm., sem vafasamt er að greiði atkv. með fjárlagafrv. út úr d., og bendir það til þess, að þeir geri ráð fyrir, að það verði að lögum. En ég skil ekki. hvernig þessir þdm. geta búizt við, að frv. verði að lögum, ef helmingur þeirra ætlar að greiða atkv. á móti því, hvort heldur sem það verður í kvöld eða fyrramálið.