16.04.1932
Efri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Síðan þetta mál var hér til umr. seinast hefir menntmn. af nýju athugað það nánar og gert á því 2 smábreyt., við 10. og 12. gr.

Brtt. við 10. gr. mælir fyrir um það, að úrskurðum og ráðstofunum, sem barnaverndarnefndir gera samkv. 7. og 9. gr., megi skjóta undir fullnaðarúrskurður barnaverndarráðs. Nm. kom saman um, að það væri nokkur trygging í því fyrir hlutaðeigendur, að þessir úrskurðir og ráðstafanir kæmu undir dóm lög fróðs manns, sem sæti í barnaverndarráðinu.

Þá er brtt. við 12. gr., sem að áliti n. færi betur, ef skotið væri inn í hana orðinu „honum“ á eftir orðunum „og er“, þar sem með því væri skýrar kveðið á um, hver á að inna það starf af hendi að víkja manni burt af heimilinu.

Svo er örstutt brtt., sem ég flyt á þskj. 417, og tekur varla að orða hana. Það hefir fallið úr í 23. gr. að minnast á 13. gr., og er þetta því gert nú til samræmis, svo sem gr. gefur tilefni til.

Það voru ummæli hv. 2. þm. Árn., sem öllu því, að n. fór að tala saman betur um málið, og lágu fyrir n. ráðleggingar frá honum, og hefir hún notað þær, og árangurinn af þeim eru brtt. á þskj. 435. En í sambandi við ákvæði 9. mgr. 7. gr. vil ég þó taka það fram, að það er eftirtektarvert að athuga það, hvað samskonar ákvæði hafa gefizt vel hjá frændum vorum Norðmönnum, sem hafa yfir 30 ára reynslu um þetta. Þeir mæla svo fyrir í sinni barnaverndarlöggjöf, að ákæruvaldið hafi rétt til að velja um að afhenda brotamál barna 14–16 ára í hendur dómstólanna eða barnaverndarnefndar, og kunnugir segja, að það sé oftar barnaverndarnefndin, sem fái málin til meðerðar. En öll brot barna innan 14 ára aldurs er alveg sjálfsagt, að barnaverndarnefnd fái til meðferðar.

Ég hefi síðan um daginn lesið ummæli merks Norðmanns, sem ritað hefir bók um þetta; hann er fangelsisstjóri við stórt fangahús í Osló. Hann sagði, að reynsla Norðmanna síðan 1895, er barnaverndarlöggjöfin var sett, sýndi það, að það væri enginn vafi á því, að það væri fyllsta ástæða til að afhenda barnaverndarnefndum öll brotamál barna til 17 ára aldurs, í stað 16, sem nú er heimilt. Þessu til sönnunar segir hann, að ekki þurfi annað en að benda á þann árangur, sem náðst hafi í þessum málum síðan barnaverndarnefndir voru settar í þessu landi, nefnilega Noregi, en hann er sá, að á árunum 1912–'21 fækkar brotamálum barna um 80%, og telur hann það eingöngu að hakka starfsemi barnaverndarnefnda. Ég hygg, að úr því að sú þjóðin, sem að skyldleika og ýmsu öðru stendur næst okkur, hefir þessa reynslu af sinni barnaverndarlöggjöf, þá sé sennilegt, að við íslendingar hefðum haft sömu reynslu í þeim málum, ef við hefðum haft samskonar löggjöf. Nú er það tíðkanlegt, að þegar barn brýtur á móti hegningarl., þá tekur lögreglan málið og rannsakar það, og sendir það síðan til stjórnarráðsins, þar sem það er afhent einhverjum skrifstofumanni, sem venjulega fellir úrskurð um, að barninu skuli ráðstafað í sveit, og hefir það þannig oft komið fyrir, að börn hafa verið gerð útlæg úr bænum og ekki mátt koma í hann aftur fyrr en eftir einhvern vissan tíma, og ég veit dæmi þess, að sá tími hefir verið í lengsta lagi 2–3 ár. Þannig verður alveg ókunnugur maður, sem ekkert hefir rannsakað málið, að kveða upp í því úrskurð, í stað þess, að barnaverndarnefndin gerði það, sem hefði rannsakað málið og farið með það frá fyrstu, og ráðstafaði síðan barninu, m. ö. o. mál barnsins væri alveg útkljáð í barnaverndarnefndinni. Það færi betur á því, því að hitt er óeðlilegt og yfirleitt óheppilegt, að þeir, sem rannsaka mál og undirbúa, eigi svo að afhenda málið í hendur manns, sem engin kynni hefir haft af því, t. d. skrifstofumanns í stjórnarráðinu, sem oft yrði að úrskurða í máli, þar sem hann ekkert vissi, hvað hann ætti að gera.

Yfirleitt er það álit þeirra þjóða, sem lengst eru komnar í þessum málum og mesta reynslu hafa í þeim, að það sé bezt að breyta sem minnst um þá menn, sem fara með hvert einstakt brotamál barna. Ég álít það óheppilegt mjög, að lögreglan sé látin hafa með þessi mál að gera. Börnin eru tilfinninganæm og viðkvæm og finnst því, að farið sé með þau eins og glæpamenn. Í Noregi eru vandræðabörn afhent sérstakri n., sem fer með málefni þeirra.

Þá vil ég fara örfáum orðum um brtt. á þskj.405. Ég sagði það um daginn, og segi það auðvitað enn, að ég tel það miður fara, ef þær verða samþ., sökum þess, að í þessu tilfelli má gera ráð fyrir, að heimildarlög séu sama sem engin lög. Það mun fara svo, að heimildin til þess að kjósa barnaverndarnefndir verður ekki notuð, og þar með ekki fremur en verið hefir tekið tillit til þarfa barnanna í þessu efni, heldur meira litið á þær tálmanir, er menn sæu á vegi þessa máls. Ef hv. dm. álíta, að þörfin fyrir verndun barnanna sé aðallega hér í Reykjavík, þá er það mikill misskilningur. Ég skal játa það, að þar sem fjöldinn hér er svo mikill, þá eru auðvitað fleiri dæmi, sem hér koma fyrir en annarsstaðar, en við þurfum ekki að leita langt utan Reykjavíkur, við þurfum ekki að fara aftur í aldir til þess að finna mörg mál, sem börn hafa verið riðin við, þannig vaxin, að þau gefa fullt tilefni til þess, að eftirlit sé haft með börnunum. Eitt slíkt dæmi, eitthvert hið athugaverðasta tilfelli, sem komið hefir fyrir í seinni tíð, gerðist fyrir skömmu síðan, og það voru ekki Reykjavíkurbörnin, sem áttu þar hlut að máli; það voru blessuð sveitabörnin í sjálfri Húnavatnssýslunni, sem stóðu í sambandi við draugaganginn á Þverá um árið. Og það er ekki langt síðan það kom fyrir á Norðurlandi, að mannúðarlögmálið var brotið svo herfilega gegn einum munaðarlausum, fátækum dreng, að fádæmum sætti. Og í Skaftafellssýslu mun slíkt átakanlegt dæmi hafa komið fyrir fyrir eitthvað 20–30 árum.

Ef það er álit hv. þdm., að hér sé það aðeins Reykjavík, sem hafi þörf fyrir þetta eftirlit, þá vil ég leyfa mér að hafa yfir fáeina kafla úr bréfum þeirra skólastjóra, sem eftir ósk n., er undirbjó þetta frv., hafa sent henni skýrslur og upplýsingar. Skólastjórar þessir eru bæði úr kaupstöðum og sveitum víðsvegar á landinu. Einn þeirra segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér eru 2 drengir, 10 og 12 ára, siðferðislega veiklaðir, sá eldri er þjófur, hinn virðist mjög tilfinningasljór fyrir; hvað sé rétt eða rangt. Heimili hans að líkindum ófært að ala upp börn“.

Annar segir á þessa leið, kennari, sem verið hefir lengi í því skólaheraði:

„Í skólahéraðinu hafa verið, síðan ég, kom hingað, og eru vist alltaf einhver börn, er sýnast hneigð til óráðvendni og miður góðrar hegðunar. Tölu þeirra vil ég ekki ákveða, en þau, sem ég veit um, hafa verið á aldrinum 10–14 ára. Mest er gert að gripdeildum. Í fyrra voru hér 2 drengir, sem voru ekki hæfir í skóla vegna framkomu sinnar.

Fyrir nokkrum árum krafðist ég þess, að 2 drengir væru teknir af heimili vegna vondra áhrifa, en fékk ekki áheyrn. Drengirnir fóru úr skólanum. — Annars rekst maður öðruhverju á heimili, sem eru þannig, að börn ættu ekki að vera þar. Er bersýnileg nauðsyn á að fá heimild til að taka börn af heimili í alvarlegum tilfellum, ekki eingöngu þegar um svonefnt saknæmt athæfi er að ræða, heldur líka önnur óholl áhrif. Tel vafalaust, að héðan mundu verða send einhver börn á hæli fyrir ósiðsöm börn öðruhverju, ef slík hæli væru til“.

Nú vil ég skjóta fram þeirri spurningu, hvort það sé ekki nauðsynlegt að hafa vissa menn og konur, sem tækju höndum saman um allt land til þess að rannsaka þetta alvarlega mál barnanna og láta ekki lengur afskiptalaus þau heimili; sem eru alofær að ala upp börn. Ég endist ekki til að lesa nema litið eitt af þeim svörum, sem n. hafa borizt frá kennurunum, en þau benda öll í þá att, að þörfin sé mikil til að taka alvarlega í taumana. Einn skólastjóri segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Álitamál er, hvað hér eru mörg siðferðislega veikluð börn. Þau eru áreiðanlega 2, á 8. og 12. ári; gengur að þeim klækjulund, þjófnaður og betl. hér eru a. m. k. 6 heimili, sem ófær eru að veita börnum sæmilegt uppeldi sakir drykkjuskapar, ósamlyndis, lauslætis og ómyndarskapar“.

Þetta eru ófagrar lýsingar á heimilunum. En þó það sé vanþakklátt starf að skipta sér af slíkum heimilum, þá er hér um þarft mál að ræða, og það er tími til þess kominn, að þjóðin vakni til meðvitundar um þetta alvarlega mál, sem framtíð hennar er svo mjög undir komin.

Einn kennari í fjölmennu þorpi segir:

„Þrjú börn siðferðilega veikluð 10–13 ára, og þó nokkur 14–18 ára. Börn þessi hafa gert sig sek í þjófnaði og jafnframt reynt að verjast því, að brot þeirra kæmust upp, með því að beita fyrir sig blygðunarlausum ósannindum“.

Annar kennari segir:

„3 til 4 heimili eru hér í þorpinu, þar sem alast upp siðferðislega vangæf börn, sem velgerningur væri að taka þaðan og koma í betra andrúmsloft“.

Sami skólakennari telur upp 5 önnur börn, sem komin eru á glapstigu fyrir eftirlitsleysi og vanrækslu. Einn kennari talar um tóbaksreykingar barna. Hann segir m. a.:

„Ég hefi séð heimilisföður, sem á 10 börn, taka rjúkandi tóbakspípuna út úr sér og stinga henni upp í 2 ára dreng sinn til að sýna hóp manna, hvað snáðinn væri efnilegur og bæri pípuna vel. 4 drengir frá því heimili reyktu, er þeir komu í barnaskólann, og öfluðu sér tóbaks með ýmsu óleyfilegu móti“.

Mér þykir þetta mega nægja, þótt ég geti tínt til fleiri dæmi, til þess að lýsa ástandinu víðsvegar á landinu í þessum efnum, er sýna átakanlega, hversu barnauppeldinu er ábótavant, en ég sé ekki þörf að flytja hér um lengri ræðu að þessu sinni. Ég treysti því, að hv. dm. sjái hinn mikla mun á því að gefa hér út heimildarlög eða ákveðin lagaboð. Ég treysti því, að þeir skilji, að tilefnið til þeirra laga, sem Alþingi gefur í þessu máli, á að vera það, að hvar á landinu, sem drepið er niður hendi, finnast samskonar dæmi og ég hefi nú bent á. Þessi fáu dæmi af mörgum, sem n. hafa borizt lýsingar af, eru víðsvegar af Íslandi tekin. Þau hljóta að sýna, að það er brýn nauðsyn að hefjast handa um slík störf. Og ég hefi ekki mikla trú á, að heimildarlög segi mikið í slíku máli sem þessu, af þeirri ástæðu, að þau verða ekki notuð. Allt öðru máli væri að gegna um bein lagaboð. Ég vil því ekki að óreyndu trúa því, að hv. þd. lofi frv. ekki að sigla frá sér í því formi, sem n. hefir lagt það fyrir d.