09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

156. mál, barnavernd

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég býst við, að þessu frv. verði yfirleitt vel tekið hér. Ég sé því enga ástæðu til að mæla með frv., en hefði þess þurft, þá mundi ég hafa gert það.

Það er ánægjulegt að sjá, hve mikla vinnu hv. menntmn. hefir lagt í að endurskoða frv. og gera við það ýmsar brtt., sem mér virðist, að séu yfirleitt til bóta.

Fyrsta brtt. er langvíðtækust og gengur í þá átt að þrengja þetta starfsvið, sem hér á að vinna á. Brtt. er í þá átt, að í stað þess að skipa barnaverndarnefndir í öllum kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, þá skuli þessar nefndir aðeins vera skipaðar í kaupstöðum, en á öllum öðrum stöðum skuli skólanefndir hafa þetta starf með höndum. þessi brtt. þykir mér ekki allskostar góð Ég viðurkenni að vísu, að þegar byrjað er á nokkurskonar nýtt starfskerfi, þá sé rétt að byrja ekki allt of stórt og sjái, hversu vel þetta gefst á nokkrum stöðum, þar sem horfin er mest fyrir þetta. Samt virðist mér, að hv. menntmn. hafi gengið fulllangt með þessari brtt. Ég hefði viljað, að íbúatala þeirra kauptúna, þar sem þessar nefndir á ekki að skipa, hefði verið hækkuð, því að sum kauptún eru svo fjölmenn, að þar væri nóg að gera fyrir þessar n. Að vísu eiga skólanefndir að annast þessi mál þar, en eins og menn vita, þá eru þær valdar til starfa, sem eru nokkuð annars eðlis. Ég hefði því fyrir mitt leyti helzt viljað, að fyrsta brtt. hefði verið tekin aftur eða þá felld. Hitt skal ég viðurkenna, að mér fannst það ákvæði frv. fullríkt, að öll þau kauptún, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, skuli skyldug til að skipa hjá sér slíka n. Það hefði verið réttara að hækka þessa lágmarkstölu t. d. upp í 500–600. Væri till. felld, þá gæti n. athugað þetta til 3. umr. og borið þá fram brtt. um þetta atriði.

Þá er það önnur brtt., sem gengur líka í þá átt að þrengja verksvið barnaverndarnefndanna, sem sé b-liður 5. brtt. Það er meira en orðabreyt., þó að hv. frsm., gæfi í skyn, að hér væri um enga efnisbreyt. að ræða. Í frv. er gert svo ráð fyrir, að barnaverndarnefndirnar hafi nokkurskonar eftirlit með þeim barnahælum, þar sem börnum er komið fyrir frá þeim stöðum, þar sem nefndin er skipuð, en eftir brtt. getur hún aðeins haft eftirlit með þeim börnum, sem hún hefir ráðstafað á þessum hælum. Ég er algerlega samþykkur þessari brtt. n., því að þessi hæli eru oft innan umdæmis annarar nefndar, barnaverndarnefndar eða skólanefndar, og væri því ekki rétt að heimila barnaverndarnefndunum að fara þannig inn á verksvið annara nefnda. Ég mæli því með þessari brtt.

Þá vil ég vekja athygli á einu atriði, sem er bæði í frv. og í brtt. n., og það er það, hvort mögulegt sé að fyrirskipa það, að 2 eða 5 konur skuli vera í nefndum, sem kosnar eru með hlutfallskosningu.

Mér virðist þetta ákvæði varhugavert, þó að ef til vill sé mögulegt að framkvæma það með því, að þeir, sem listana setji fram, komi sér saman um þá; annars er ekki hægt að tryggja þetta.

Ég álít, að n. hafi stigið rétt spor með 14. brtt., þar sem hún leggur til, að ráðh. skuli skipa barnaverndarráð, en í frv. er það aðeins heimild. Að vísu má gera ráð fyrir, að sú heimild yrði notuð, en ég álít samt rétt, að svo sé ákveðið, að það skuli gert. Það er ekki hægt að hugsa sér, að ráðuneytið gæti haft eins gott eftirlit með þessum málum eins og sérstakir menn, sem til þess yrðu kjörnir, því að ég get vel ímyndað mér, að það yrðu einhverjir þeir menn, sem mest hafa beitt sér fyrir því, að þessi lög yrðu sett, og hafa mestan áhuga á þessum málum.

Þó að hér sé eitt og annað fleira, sem ástæða væri til að minnast á til meðmæla eða andmæla, skal ég ekki tefja tímann með því að gera það frekar.