20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi borið fram brtt. við þetta frv. um það, að Ólafsfjörður verði gerður að sérstöku læknishéraði. Hér liggur og fyrir þessari d. sérstakt frv. um þetta sama. Er það komið frá Ed. og var samþ. þar. Ég vil vona, að hv. allshn., sem hefir það til meðferðar, afgreiði það engu síður, þótt þetta frv., sem nú liggur fyrir, ásamt brtt. minni verði samþ. hér í d. Skeð getur, þar sem nú er orðið allmjög áliðið þings, að þetta frv. gangi ekki fram á þessu þingi. Er þá gott, að hitt frv. gæti verið komið til 3. umr., svo að fljótlega mætti afgreiða það. Ef þetta dagaði uppi. En gangi þetta frv. fram á annað borð, þá taldi ég réttara að taka þetta atriði upp í þau heildarlög um skipun læknishéraða. Ég hefi því borið fram brtt. um, að Ólafsfjörður verði tekinn upp í frv. sem sérstakt læknishérað.

Þetta er nú ekki neitt nýtt mál hér á Alþingi. Það var fyrst flutt fyrir meira en 10 árum, og svo aftur og aftur. Síðar komst svo málið inn á nýja braut, því að þótt þingið fengist ekki til að gera Ólafsfjörð að sérstöku læknishéraði, þá viðurkenndi það þó þörfina á að hafa þarna sérstakan lækni með því að taka 1925 upp í fjárl. næsta árs styrk til Ólafsfirðinga til að launa sérstakan lækni. Þetta komst þó ekki strax til framkvæmda. En síðri árin hefir verið þar sérstakur læknir, ráðinn af hreppnum, en styrktur af ríkinu með 2600 kr. á ári. En Ólafsfjarðarhreppur hefir lagt fram 1600 kr. til að launa hann. Sá læknir, sem nú er, var ráðinn til 5 ára, og eru samningar við hann út runnir á næsta ári. Ef ekki næst samþykki Alþingis fyrir því, að þarna verði sérstakt læknishérað, þá skal ég ekkert um það segja, hvernig um þetta fer, þegar samningstíminn er út runninn. Ég veit ekki, hvort Ólafsfirðingar treysta sér að ræða lækni áfram. Þetta er vitanlega mjög þungur baggi á einum hreppi, og það er alveg sérstætt að leggja slík gjöld á einn hrepp, þar sem ríkið launar alla aðra héraðslækna, en starf þessa læknis er alveg hliðstætt starfi þeirra. Það er því á engan hátt sanngjarnt að leggja þetta gjald á Ólafsfirðinga, sem á engum öðrum landsmanna hvílir. –Hvað þörfina fyrir það að hafa þarna sérstakan lækni snertir, þá sýnir hana ljóslegast það, að Ólafsfirðingar vinna það fyrir, til þess að geta haft sérstakan lækni, að leggja á sig þung gjöld. það er alveg augljóst, að hreppsfélagið gerir það ekki að gamni sínu að leggja á sig gjald, er nemur hátt á 2. þús. kr. árlega. Þá sýnir það einnig þörfina, að ríkisvaldið hefir viðurkennt hana með því að styrkja þarna sérstakan lækni, þótt það hafi að vísu ekki enn veitt Ólafsfirðingum sama rétt og öðrum. Þá má enn benda á það, að í þessari sveit er mikil fólksfjölgun, vegna þess að þar er að vaxa upp kauptún, sem stækkar árlega. Að vísu yrði Ólafsfjörður nú með fámennari læknishéruðum, en þó ekki hið fámennasta. Og ég hygg, að þess verði ekki langt að bíða, að þó nokkur önnur læknishéruð verði fámennari. Ég skal þó játa, að það er ekki fólksfjöldinn, heldur staðhættirnir, sem gera það alveg nauðsynlegt, að læknir sé til staðar í Ólafsfirði, og þá um leið réttmætt, að þar verði sérstakt læknishérað.

Ég vil benda á það, að fjörðurinn má heita algerlega einangraður. Sveitin er umgirt háum fjöllum. Yfir þau eru engar leiðir og sízt í þá átt, sem liggur til læknis. Og þó hægt sé að klöngrast yfir þau um hásumarið, þá eru þau oftast alveg ófær á vetrum. Er þá ekki um annað að ræða en sjóleiðina. Varð og áður en sérstakur læknir kom að sækja lækni sjóleiðis til Dalvíkur. En sú leið er einnig oft ófær. Því er svo háttað, að Ólafsfjörður er mjög grunnur innan til. Brýtur því oft á honum svo, að alófært er inni á honum, þótt fær sjór sé úti fyrir. Einnig er mjög brimasamt við lendingarstaðina. Þetta gerir það að verkum, að Ólafsfirðingar sjá sér ekki fært að hafa báta sína liggjandi þar á vetrum. Þeir hafa þá á Siglufirði eða Akureyri, að svo miklu leyti, sem þeir leggja þeim ekki á land. Það getur því oft farið svo, þegar sækja þarf lækni í lífsnauðsyn, að þá er bæði ófært á sjó og landi. Sjá allir, hvað af slíku getur leitt. Þar sem þá einnig fólkið í Ólafsfirði er orðið eins margt og í sumum öðrum læknishéruðum og fer fjölgandi, þá er ekki forsvaranlegt, að þarna sé læknislaust. En búast má við því, að svo fari, ef Alþingi sér sér ekki fært að samþ., að þar verði sérstakt læknishérað.

Hin brtt. er aðeins afleiðing af þessari. Ólafsfjarðarhreppur hét áður Þóroddsstaðahreppur.