20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að leiða athygli hv. þdm. að einu atriði í þessu frv., sem snertir skiptingu læknishéraða. Þetta læknishérað er Nauteyrarhérað. Samkv. gildandi l. nær hérað þetta yfir 4 hreppa, Snæfjalla-, Nauteyrar-, Reykjarfjarðar- og Ögurhreppa, að Vigur undanskilinni. Í frv. er farið fram á það að bæta Súðavíkurhreppi við og taka hann undatt Ísafjarðarhéraði. Íbúar þessa hrepps hafa sent þinginu skrifleg mótmæli gegn þessu. Í frv. eru sett ákvæði um, að hreppsbúar eigi jöfnum höndum tilkall til héraðslæknisins á Ísafirði, og í langflestum tilfellum mundu þeir sækja Ísafjarðarlækninn, bæði af því, að oftast má nota ferðina til annars um leið og læknis er vitjað, svo og af því, að gera má að öllum jafnaði ráð fyrir, að Ísafjarðarlæknirinn sé reyndari og betri læknir, og auk þess er ágætt sjúkrahús á Ísafirði, svo að nota má sömu ferð til þess að flytja sjúklinga, sem þurfa að fara á sjúkrahús, og þá, sem farin er til að flytja lækninn heim. Hreppsbúar eru hræddir við, að þessu ákvæði um rétt þeirra til að nota Ísafjarðarlækninn óskorað geti verið breytt síðar. Þess vegna er eðlilegt, að þeir mótmæli mjög ákveðið.

Í núgildandi l. er læknissetrið í Nauteyrarhreppi á Langadalsströnd. Er næsta eðlilegt, að íbúar Nauteyrarhrepps mótmæli færslu þeirri, sem hér er farið fram á í frv. Það er rétt að búsetumál læknisins hefir verið hið mesta deilumál innan héraðs. Fyrrv. landlæknir reyndi að fá samkomulag um læknissetrið, og kjörmenn úr viðkomandi hreppum hafa hvað eftir annað með nokkurra ára millibili haldið fundi um málið og reynt að ná samkomulagi, en ávallt án árangurs. Hinsvegar er öllum héraðsbúum vitanlegt, að ekkert verður úr byggingu læknisbústaðar meðan samkomulag ekki fæst. En jafnframt er fullreynt, að ekki fæst læknir í héraðið til frambúar, nema byggt sé fyrir hann.

Útlit er fyrir, að ekki fáist samkomulag innan héraðs um læknissetrið og þá ekki um byggingu læknisbústaðar. Þar með er það fyrirfram séð, að ekki taka allir hreppar héraðsins þátt í kostnaðinum við byggingu læknisbústaðar. Það er fyrirsjáanlegt, að ekki verður kleift fyrir þá hreppa, sem taka vilja hátt í kostnaðinum, að leggja fram það fé, sem áskilið er móti tillagi ríkissjóðs, og má því búast við, að ríkissjóður verði að greiða meira en almennt hefir verið gert. Mér þætti í mesta mata ósanngjarnt að skylda t. d. Súðavíkurhrepp, sem tilheyrt hefir öðru læknishéraði, þar sem engin kvöð hvílir á um byggingu læknisbústaðar, til þess að leggja fram fé til byggingar læknisbústaðar. Nokkuð sama má segja um þá hreppa, sem ekki samþykkja læknissetrið. Í þessu tilfelli, sem hér liggur, fyrir, er svo ástatt, að lítt hugsanlegt er, að meira en tveir hreppar samþ. læknissetrið. Ég hefi getið þess hér, svo að engum komi á óvart, þótt ríkissjóðstillagið til byggingar læknisbústaðar í þessu héraði verði nokkru hærra en almennt hefir verið. Fyrir því er fordæmi, að tillag ríkissjós hefir orðið mun hærra, vegna þess að ekki hefir náðst samkomulag um læknissetur, og þeir hreppar, sem óánægðir voru, hafa ekkert tillag greitt, en ríkissjóður greitt þann hluta, sem þeim annars bar að greiða.

Þá vil ég geta þess, að auk þess sem Súðavíkurhreppur hefir mótmælt sameiningunni, þá hafa hreppsnefndir tveggja annara hreppa, Nauteyrarhrepps og Reykjarfjarðarhrepps, og þá líka hreppsbúar, mótmælt þeirri breyt., að læknissetrið yrði flutt að Ögri. Það er sérlega erfið læknisvitjun frá innri hl. Nauteyrarhrepps að Ögri. En sé læknishéraðið stækkað svo sem lagt er til í frv., þá er Ögur næst miðju héraðsins.

Ég hefi viljað kynna hv. þdm. þessi mótmæli hinna ýmsu hreppa gegn breyt. Hitt verð ég að játa, að ástandið er ótækt eins og það er, og sýnilegt, að engin lausn fæst svo, að ekki verði nokkur hl. héraðsbúa óánægður. Hitt er vafasamara, að breyta einu vissu ástandi í ef til vill annað verra og taka heilan hrepp gegn mótmælum hans úr hagfelldu sambandi við læknishérað og setja hann í annað mun óhagfelldara.