23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

1. mál, fjárlög 1933

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég hefi leyft mér að bera hér fram tvær brtt. á þskj. 800. Sú fyrri þeirra snertir einn af helztu málurum landsins, Gunnlaug Blöndal, og fer fram á 1200 kr. styrk til hans. sú er ástæða til þess, að ég ber þetta fram, að þessi málari hefir getið sér mikið frægðarorð. Hann hefir dvalið langvistum í París og er sá eini listmálari þjóðarinnar, sem tekizt hefir að selja myndir þar. M. a. hefir ein mynd hans verið keypt á aðalmyndasafn Frakka, safnið í Luxemborg. Er það fágætur heiður fyrir norrænan málara. Nú gætu hv. þm. hugsað eða sagt sem svo, að þar sem þessum málara hefir gengið svo vel, að hann hefir hlotið viðurkenningu hjá stórri þjóð, þá sé síður ástæða til að veita honum styrk. En það er einmitt vegna þess, að hér er um listamann að ræða, sem lengra hefir komizt en títt er hjá okkur, að ég ber þetta fram. Með því eru honum um skeið veitt skilyrði til að brjótast áfram í stóru landi og þessi hái styrkur gerir honum fært að dvelja í París og halda þar áfram sínu starfi. Eins og nú er erfitt með að veita styrki, hefði mér ekki komið til hugar að fara fram á slíkt, ef um hversdagslegan listamann væri að ræða. En Gunnlaugur Blöndal er kominn svo langt á listabrautinni, að miklu meiri ástæða er til að styrkja hann heldur en byrjanda, með vafasömum efniviði. Ég bið því hv. þdm. að meta þessa till. frá því sjónarmiði, að hér er um mann að ræða, sem í sér hefir þá möguleika, sem kastað geta ljóma á Ísland í augum erlendra þjóða. Eins og ég sagði, gerir þessi styrkur málaranum það fært að starfa áfram um skeið á heim stað, sem skilyrðin eru bezt.

Hin till. er um það, að greiða til Búnanaðarbanka Íslands viðlagasjóðslán vegna Stefáns í Hvítadal, að upphæð 8000 kr. Saga þessa máls er sú, að fyrir eitthvað 10 árum, útvegaði Bjarni heit. frá Vogi, sem þá var þm. Dal., Stefáni frá Hvítadal 8 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til þess að kaupa jörð, Bessatungu, er kostaði þessa upphæð. Hér var þegar í upphafi um listamannastyrk að ræða. Stefán var þá sárheilsulítill og var þetta gert til þess að hann gæti dvalið í sveit. Nú er Stefán fátækur og heilsulítill og hefir fyrir 7 eða 8 ungum börnum að sjá. Hefir því að vonum farið svo, að hann hefir ekki reynzt megnugur að greiða vexti af láni þessu, enda hefir víst aldrei verið harkalega að því gengið, að hann gerði það. En nú hefir Búnaðarhankanum verið afhentur viðlagasjóður, en skiljanlegt er, að hann verði nokkuð harðhentari en ríkissjóður var. Nú hefir sú ráðstöfun verið gerð, að jörðin verði seld vegna þessarar skuldar. Hefir sýslumaður Dal. tjáð mér, að hann biði eftir því að sjá, hvort ekki vildi eitthvað til, sem gerði það að verkum, að ekki þyrfti að ganga að þessari jörð. Nú er það svo, að þó jörð þessi væri keypt svona hátt á sinni tíð, ha er talið, að hún muni nú seljast fyrir varla meira en 2000 kr. Tapar þá ríkissjóður eða Búnaðarbankinn mismuninum hvort sem er. Vinningurinn verður því lítill, en Stefán skáld kemst hinsvegar á vonarvol með hin mörgu börn sín, ef jörðin er seld. Þessa skýringu læt ég nægja sem meðmæli með þessari brtt.