23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Magnús Guðmundsson:

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að Súðavíkurhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu verði tekinn undan Ísafjarðarhéraði og lagður undir Ögurhérað. Ég hefi leyft mér að koma fram með brtt. við þetta á þskj. 501, þannig, að Súðavíkurhreppur verði framvegis eins og hingað til látinn fylgja Ísafjarðarhéraði. Út á þetta gengur 1. brtt. á þskj. 501. — Svo er 2. brtt. á þessu sama þskj., í þremur stafliðum. a-liðurinn er sjálfsögð afleiðing af fyrri brtt., og b-liðurinn er um það, að læknissetrið skuli ákveðið af héraðsbúum sjálfum; c-liður er afleiðing af hinum, ef samþ. verða.

Ástæðan til þess, að ég hefi flutt þessar brtt., er sú, að ýmsir menn úr þessu héraði hafa látið þá ósk í ljós við mig, sérstaklega úr Súðavíkurhreppi, að fá að vera áfram í Ísafjarðarlæknishéraði. Ég er svo ókunnugur þarna, að ég get ekki sagt alveg nákvæmlega um ástæðuna fyrir því, en mér skilst helzt, að það sé bæði læknissetrið, sem um er að ræða, og svo hitt, að þeir vonast frekar eftir, að á Ísafirði verði betri læknir. Ég skil varla, að þetta geti verið kappsmál neinum hv. þm., að samþ. frv. óbreytt, því að venjan mun vera sú, að sá læknir gegnir, sem til er farið, hvort sem hann er skyldugur eða ekki. Ég get því ímyndað mér, að þetta atriði hafi ekki neina stórkostlega þýðingu, og býst við, að íbúar hreppsins myndu geta notið læknis á Ísafirði, jafnvel þótt þeir heyrðu undir Ögurhérað. En það eru ýmsar aðrar ástæður, eins og kostnaðurinn við að reisa læknisbústað o. fl. Ég veit, að hv. þm. Ísaf. og hv. þm. N.-Ísf. eru mjög kunnugir þarna, og þar sem hv. þm. Ísaf. er nú landlæknir og flm. þessa frv., þá geri ég ráð fyrir, að hann skýri frá, hvers vegna hann hefir gert þessar breyt., því að ég ætla þær fáar, ef nokkrar eru, breyt. á læknishéruðum, sem þetta frv. ráðgerir, að undantekinni þeirri, er hér um ræðir.