23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1662)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Vilmundur Jónsson:

Ég skal taka það fram, að ástæðan til þess, að farið er hér fram á þessa breyt. á takmörkum Nauteyrarlæknishéraðs, er sú, að eins og héraðið er nú, er það svo fámennt, að vandræði eru að fá þangað lækni til nokkurrar frambúðar. En með því að bæta Súðavíkurhreppi, sem er allfjölmennur, við Nauteyrarhérað, verður það nægilega fjölmennt, til þess að hægarleikur ætti að vera að fá sæmilegan lækni til að una þar. Af því Súðavíkurhreppur hefir til þessa heyrt til Ísafjarðarlæknishéraði og hreppsbúar þar kjósa sjálfir engin skipti, þá er þeim í frv. þessu tryggður sami réttur til Ísafjarðarlæknisins og áður. Má því segja, að aðstaða þeirra til læknisþjónustu sé betri en áður, í stað þess að vera síðri, og hafa þeir sannarlega undan engu að kvarta. Viðvíkjandi atkvgr. um, hver aðseturstaður læknisins skuli vera í þessu héraði, vil ég geta þess, að hún hefir þegar farið fram. Í lestrarsal þingsins liggja frammi áskoranir frá meiri hl. héraðbúa um það, að lækninum skuli valinn aðseturstaður í ögri. Hver einasti alþingiskjósandi í Snæfjallahreppi og Ögurhreppi — en í þeim hreppum er fullur meiri hluti Héraðsbúa — óska þess eindregið, og þar að auki allmargir úr Reykjarfjarðarhreppi. Raunar er það aðeins einn hreppur, Nauteyrarhreppur, sem telur sig verða hér hart úti — og verður það. En það er því miður sú minnsta óánægja, sem hægt er að gera ráð fyrir í sambandi við lausn þessa máls. Héraðið er svo illa lagað, að engin leið er að velja þann aðseturstað fyrir lækni, að allir geti vel við unað. Hvar annarsstaðar en í Ögri eða þar í grennd, sem læknirinn yrði settur niður, mundu tveir hreppar í stað eins hafa a. m. k. jafngilda ástæðu til óánægju.

Ég vil taka undir orð hv. þm. N.-Ísf. um, að sanngjarnt væri, að Nauteyrarhreppsbúum væri ætlaður nokkur læknisvitjanastyrkur, ef þessi skipun kemst á, og eins vil ég láta þá skoðun í ljós, að það er aldrei nema rétt og eðlilegt, að þeir hreppar, sem hafa lækninn hjá sér, kosti meiru til læknisbústaðar en hinir, sem fjær liggja, enda býst ég við, að bæði Nauteyrarhreppur og Súðavíkurhreppur verði tregir til að leggja fram fé til læknisbústaðar í Ögri. En Ögurhreppsbúum og Snæfjallahreppsbúum ætti að verða því ljúfari útlátin, og fá það margfaldlega uppborið síðar í ódýrari læknisvitjunum. Ég vil leyfa mér að mælast til þess, að hv. d. felli brtt. hv. 2. þm. Skagf., því að verði þær samþ., yrði það ekki til annars en gera ef til vill nokkra fáa menn ánægða, en meiri hluta þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, mikinn órétt. Aftur á móti vil ég mælast til þess, að frv. verði samþ. óbreytt. Mótmæli þau, sem borizt hafa frá íbúum Súðavíkurhrepps gegn því, að hann verði sameinaður Nauteyrarhreppi eru að engu hafandi, því að þau eru á misskilningi byggð, þar sem engin réttindi eru frá íbúum Súðavíkurhrepps tekin, heldur þess í stað aukið við þau, þar sem hér er gert ráð fyrir, að þeim sé veittur réttur til tveggja lækna í stað eins, sínum til hvorrar handar.