23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, fjárlög 1933

Halldór Steinsson:

Ég hefði naumast þurft að standa upp til þess að mæla með þessari litlu brtt., er ég á hér. En fyrst ég er staðinn upp, þá er rétt, að ég skýri hana með nokkrum orðum.

Þessi brtt. fer fram á það, að veittar verði 300 kr. til sjúkrasjóðs hjúkrunarfélags Ólafsvíkur. — Í kauptúnunum á Ólafsvík og Sandi hefir verið stofnaður félagsskapur með það fyrir augum að hlaupa undir bagga með fátækum heimilum þegar sjúkdóm hefir borið að höndum. Þar hagar svo til, að á sumrin eru heimilin oft fámenn, aðeins konan heima með börnin. Verða þá erfiðar kringumstæður, þegar svo ber undir, að sjúkdóm ber að höndum, eða konan fatlast frá. Hefir þá verið hlaupið undir bagga í slíkum tilfellum og fengin hjúkrunarkona til aðstoðar heimilunum. Hefir þetta komið sér vel, enda hefðu heimili þráfaldlega komizt í vandræði, ef þetta hefði ekki komið þeim til hjálpar. Á Sandi hefir þessi félagsskapur starfað í mörg ár og leitt af sér mikið gott, en í Ólafsvík er hann á byrjunarstigi. Skal ég ekki mæla fleira, enda geri ég ráð fyrir því, að hv. d. samþ. þetta.