11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Halldór Steinsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, eru fá nýmæli í þessu frv. Aðalefnið er í l. frá 1907, en auk þessa eru önnur lagaákvæði tekin með, og er gott að fá þetta með viðeigandi breyt. í eina heild. Aðalnýmæli frv. er breyt. á héraðslæknisembættinu í Reykjavík, og reyndar líka nokkrar breyt. á læknishéruðum landsins, sem inn í það hafa komið undir meðferð þess í þinginu. Þegar ég sá frv., saknaði ég þess, að í 6. gr., þar sem talað er um laun læknanna, varð ekki séð, að ákveðin væru laun læknis í Ólafsfjarðarhéraði eða honum ætluð laun. En ég sé nú, að landlæknir hefir ráðið bót á þessu með nýju frv. um laun þess læknis. hér liggja nú fyrir tvær brtt., og get ég á hvoruga fallizt. Önnur er um hið margumtalaða Ögurhérað. Í frv. er ákveðið, að læknissetrið verði í Ögri. En með brtt. er lagt til, að það verði í Vatnsfirði. Þessi till. er byggð á mótmælum, sem komið hafa úr þessu héraði gegn því, að læknissetrið verði í Ögri. En nú er það svo, að mótmæli hafa komið frá báðum hliðum úr þessu héraði. Og ef byggja skal á mótmælum, sem fram hafa komið gegn því, að læknissetrið verði í Ögri, þá má ekki síður byggja á miklu fjölmennari áskorun, sem komið hefir fram um það, að læknissetrið verði í Ögri. Ef því meiri hl. héraðbúa eiga að ráða þessu, þá er eðlilegast, að læknissetrið sé ákveðið í Ögri. Ég get heldur ekki af framansögðu verið með þessari brtt.

Hin brtt. er um það að leggja Höfðahverfishérað niður. Ég held nú, að ég hafi verið sá eini hér í hv. d., sem var á móti stofnun nýs héraðs í Ólafsfirði, þegar það mál var hér fyrir d. Var það af því , að ég tel ekki rétt að stofna lítil héruð. En þótt ég hafi þá skoðun, þegar um skipun nýs héraðs er að ræða, þá er ég líka mótfallinn því, að niður séu lögð gömul læknishéruð, því að þar sem læknir hefir lengi verið, eins og ástatt er um þetta hérað, eru það mikil viðbrigði fyrir íbúa héraðsins að tapa honum. — Eins og gengið var frá Höfðahverfishéraði í Nd., þá var það víst lítið meira en einn hreppur. En einn fjölmennur hreppur getur líka átt kröfu til þess að hafa sérstakan lækni, og hv. 2. þm. Eyf. byggði einmitt á því , er hann mælti fyrir því, að Ólafsfjörður væri gerður að séstöku læknishéraði. Á þetta féllust flestir hv. þdm. Eins mun vera ástatt í því héraði, sem hér um ræðir, að þar yrði erfitt um læknisvitjun, ef héraðið væri niður fellt. — Einkum má segja, að það sé vart viðeigandi, þar sem fólkið í þessu héraði er orðið því vant að geta náð í lækni á hægan hátt. Ég tel þetta því heldur ekki rétt og er því mótfallinn báðum brtt.