11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

36. mál, skipun læknishéraða, verksvið landlæknis og störf héraðslækna

Frsm. (Einar Árnason):

Mér er kunnugt um, að hv. flm. till. leggja ekkert kapp á að koma þeim fram. Skal ég því reyna að haga orðum mínum svo, að þau veki ekki deilur. Ég vil þó gera nokkrar aths. við þær. Er þá fyrst brtt. hv. 4. landsk. Það er rétt, sem hv. þm. tók fram, að nokkur togstreita mun hafa orðið um læknisbústað í þessu héraði. Hefir verið safnað áskorunum og undirskriftum með og móti, og niðurstaðan orðið sá, að mikill meiri hl. kosningabærra íbúa héraðsins hafa óskað eftir Ögri sem læknissetri, eins og gert er ráð fyrir í frv. Vitanlega verða hlutaðeigendur aldrei á eitt sáttir um slík mál sem þessi. Hver sveit vill hafa lækninn sem næst sér. En einhver verður úr að skera. Þingið verður því að taka ákvörðun sína eftir því, sem það álítur heppilegast almennt skoðað.

En að því er snertir Súðavíkurhrepp, sem hv. þm. sagði, að ætti hægasta sókn til Ísafjarðar, þá vil ég leyfa mér að benda á það, að við Ögurhérað er sú aths., að íbúum Súðavíkur er heimilað að vitja læknis jöfnum höndum til Ísafjarðar sem Ögurs. Hafa þeir því sama rétt og þann, er þeir hafa haft áður. Þessi hreppur verður því ekki að neinu leyti verr settur en hann er nú og þurfa þeir því ekki að vera óánægðir með brtt.

Læknirinn hefir nú upp á síðkastið setið í Ögri, svo að héraðsbúar hafa fengið reynslu af því og yfirleitt líkað það vel. Samgöngur um þetta hérað eru aðallega með Djúpbátnum milli Ísafjarðar og Arngerðareyrar, og Ögur er þar í leiðinni. Er það mjög þægilegt, að læknirinn geti komizt þannig með bátnum inn eftir sínu héraði og til baka aftur. Þetta er ein ástæðan af mörgum fyrir því, að ég tel ekki rétt að breyta þessu atriði. Ennfremur er sú ástæða, að þegar þetta frv. var til meðferðar í Nd., þá kom engin brtt. í þessa átt frá þm. þessa kjördæmis, og tel ég það mjög mikilsverða ástæðu fyrir því, að þessi brtt. eigi ekki að ná fram að ganga.

Þá var það brtt., sem hv. 3. landsk. mælti fyrir, og var hún um það, að leggja niður Höfðahverfislæknishérað. — Hann talaði fyrir þessari brtt. á þeim grundvelli, að það væri óheppilegt eða a. m. k. athugunarvert að fjölga embættismönnum. þetta má auðvitað segja, ef það er verulegt fjárhagsatriði. En ég vil aðeins benda honum á, að með því að gera Ólafsfjörð sérstakt læknishérað fellur niður læknisvitjanastyrkur sá, er Ólafsfjörður hefir fengið í fjárlögum, en hann er 2600 kr. Auk þess sparast 500 kr. við það, að Ögurhérað færist í lægri launaflokk, svo að sú breyt., sem hér er lagt til, að gerð verði á skipun læknishéraðanna, getur aldrei komið til með að kosta ríkissjóð meira en 1000 kr., og er ekki hægt að segja, að það sé stór upphæð, þegar um það er að ræða, að hjálpa afskekktum hreppi til að tryggja sér læknishjálp.

Ég neita því að vísu ekki, að mögulegt sé að leita læknis úr Höfðahverfi til Dalvíkur. Það er hægt, þegar mótorbátar ganga þarna, en getur þó verið ómögulegt, ef ófært er sjóveður. Nú er þess að gæta, að Grýtubakkahreppur er mjög víðlendur, og honum tilheyrir afskekkt sveit norðan í landinu. Þar er yfir fjöll og firnindi að fara inn í Höfðahverfi, þar sem læknissetrið er. Ef þar væri ekki læknir, þá yrði að bæta við sjóleið yfir fjörðinn vestur til Dalvíkur. Verður þetta í mörgum tilfellum tvær dagleiðir. Ég vil helzt líkja þessu við það, ef menn, sem byggju í Hornvík eða Aðalvík, ættu að sækja lækni í Ögur. Sömuleiðis tilheyrir Látraströndin Grýtubakkahrenpi og nær út með öllum Eyjafirði, og væri miklum erfiðleikum bundið að sækja lækni þaðan til Dalvíkur. — Þess er ennfremur að gæta með Draflastaðasókn, sern nú er í þessu læknishéraði, en á eftir till. að leggjast til Akureyrar, að Akureyrarhérað er svo víðlent og mannmargt, að það væri óhugsandi, að héraðslæknirinn þar gæti annað því öllu. Þess vegna yrði það að koma að þak þeirra praktíserandi lækna, sem á hverjum tíma eru á Akureyri, og er þá vitanlega undir högg að sækja, hvort hægt er að fá þá lækna. Ég tel því rétt að fara ekki að þekja óánægju og erfiðleika hjá því fólki, sem þarna á hlut að máli, með því að fella niður þetta hérað, þar sem þarna er líka læknir, sem vill vera þar áfram, svo að það er ekkert því til fyrirstöðu, að héraðinu verði þjónað. Ég hefði því helzt óskað eftir, að hv. flm. þessarar till. vildu taka þær aftur, því að ég held, að ef þetta verður samþ., þá get í það ekki annað en að valda hlutaðeigandi héraðsbúum óánægju og erfiðleika.