04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

1. mál, fjárlög 1933

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Áður en ég vík að því, sem hv. þm. G.-K. sagði, vil ég ljúka þeim þræði, sem ég var byrjaður á. Ég hafði sýnt fram á, að meiri hl. ræðu hv. þm. G.-K. hneig að hinu sama, að ekki væri alveg eins mikið um fjármálavizku hjá Íhaldinu eins og það vildi vera láta. Ég hefi sýnt fram á það, hvernig stærsta fyrirtækinu, sem rekið hefir verið hér á landi — Íslandsbanka — var stjórnað af trúnaðarmönnum Íhaldsins. Ég hefi sýnt fram á, hvernig sum þeirra fyrirtækja, sem Íslandsbanki studdi og gerði sérstaklega hátt undir höfði með lán, voru rekin. Sem dæmi þessa má nefna Gísla Johnsen í Vestmannaeyjum.

Árið 1922 voru skuldir Gísla við bankann 240 þús. kr., 1923–24 175 þús., 1925 265 þús. kr., auk skulda hans í Vestmannaeyjum, 1926 774 þús. kr. í Reykjavík ásamt 474 þús. kr. í Vestmannaeyjum. 1927 eru skuldir þessa manns við bankann orðnar 1 millj. 443 þús. kr. og honum orðið um megn að standa skil á vöxtum og höfuðstól. Aðrar skuldir Gísla voru þá 322 þús. kr. En þrátt fyrir þetta skilur Gísli á þessu ári fjárhag við konu sína og afhendir henni hús þeirra við Túngötu með innanstokksmunum, sem virt er á tæp 170 þús. kr. Bankinn gefur samþykki sitt til þessa, þótt vitanlegt væri, að firmað átti hvergi nærri fyrir skuldum. Þetta er ekki eins og það á að vera. Það er eins og mögru kýrnar, en ekki þær feitu. Og þessu „ágæta“ fyrirtæki, sem var innsta virki Íhaldsflokksins, var stjórnað þannig, að árið 1929 átti Íslandsbanki 1 milljón 775 þús. kr. hjá þessu eina firma, og þegar það einu ári seinna var gert gjaldþrota, var það í 3 millj. króna skuld, en eignir ekki metnar meira en 1 millj. Það getur því hver sagt sér sjálfur, hvílíkt tap hefir af þessu leitt.

Þá er eftir að minnast á fjórða manninn — Stefán Th. Jónsson á Seyðisfirði — sem árið 1920 skuldaði Íslandsbanka

380 þús. kr.

Árið 1921: 667 — —

— 1922: 588 — —

— 1923: 688 — —

— 1924: 805 — —

— 1925: 1 milIj. 87 — —

— 192G: 1 — 249 — —

— 1927: 1 — 613 — —

— 1928: 1 — 907 — —

—1929: 1 — 999 — —

eða nær 2 millj. kr. Athugið, að allan þennan tíma er yfir Íslandsbanka maður, sem hefir 40 þús. kr. árslaun — dýrasti maður Íslands, bæði um kaupeyðslu og óhappaverk. Og hann lætur skuldina við Stefán Th. hækka á árunum 1920–1929 úr 380 þús. upp í tæpar 2 millj. kr., þótt vitanlegt væri, að þar væri ekki annars að vænta en stighækkandi taps. Hinn eiginlegi bankaeftirlitsmaður mun ekki hafa gætt þessa alltaf vel. Þegar núv. forsrh. sendi Svavar Guðmundsson til Seyðisfjarðar, kom í ljós, að Stefán Th. framlengdi ekki víxla sína eins og venjulegir menn, heldur var lagður nýr víxill við gamla víxilinn og með honum lögð sérstök nóta, sem sýndi, hve miklir vextirnir áttu að vera. Þetta hékk svo allt saman, gamli víxillinn, nýi víxillinn og nótan, sem sýndi, hvað bankinn greiddi í viðbót af áföllnum vöxtum. Rannsóknarnefndin fullyrðir, að ef Stefán hefði verið gerður upp 1925, hefði tapið orðið 1 millj. kr. minna, en hann var ekki gerður upp fyrr en eftir þessa för Svavars. En þegar forsrh. fór fram á það 21. okt. 1929, að skipt væri um bankastjóra á Seyðisfirði, þá greiðir Jón Þorláksson ekki atkv. um það; svo mjög var Íhaldsflokkurinn flæktur inn í þetta, að þegar skuldir Stefáns eru orðnar 1 millj. 999 þús. kr., vill formaður flokksins ekki greiða atkv. um það, hvort hann skuli gerður upp. Endanlegt tap á þessum manni varð Í millj. 650 þús. kr.

Þá kem ég að þeim, er ég ætlaði síðast að minnast á — Sæmundi Halldórssyni. Um það leyti sem Eggert Claessen kemur að bankanum með sínum þau launum eru skuldir Sæm. Halldórssonar við bankann 190 þús. kr. Næsta ár á eftir — 1923 — er skuldin komin upp í 210 þús. kr.

1924: 205 þús. kr.

1925: 234 — —

1926: 342 — —

1927: 469 — —

1928: 595 — —

1929: 718 — —

Þess er að geta, að árið 1925 gengur Íslandsbanki í ábyrgð fyrir Sæmund í Kauþm.höfn fyrir 150 þús. danskra króna, og þó meiru seinna. Nefndinni reiknaðist svo til, að ef Sæmundur hefði verið gerður upp 1925, myndi tapið hafa orðið um 200 þús. kr., í stað 700 þús. kr., þegar hann varð gjaldþrota eftir að Íslandsbanki dó.

2. júní 1930 er Sæmundur gerður gjaldþrota. Skuld hans þá við bankann er 766 þús. kr., en eignirnar 48 þús. kr. stuttu máli: Fyrirtækinu var stjórnað þannig, að það seig niður á við ár frá ári, og þegar það er gert upp, á það ekki nema 48 þús. kr., en skuldir þess komnar upp í 766 þús. kr. Sumir andstæðingar Framsóknar, sem talað hafa í kvöld, hafa verið hissa á því, að á þetta hafi verið minnzt, en þess er að gæta, að meðferð þess fjár er eitthvert stærsta innanlandsmálið. Á þennan hátt hafa farið um 20 millj. kr., sem Íslandsbanki sukkaði af fé almennings í þetta dæmalausa ráðleysi og vesalmennsku. Og tvennt er athugavert við þetta fjármálasukk, og það er, að sá flokkur, sem kemur nú og áfellir stj. fyrir að hafa varið peningum góðæranna til þess að gera landið byggilegra, til þess að leggja síma og vegi, til þess að auka stórkostlega ræktunina, til húsabóta, til þess að reisa skólahús, til þess að efla þjóðbankann og stofna Búnaðarbankann — þessir menn, sem staðið hafa að Íslandsbanka — mennirnir, sem framið hafa þetta stórkostlega hneyksli og sýnt hið fullkomnasta ráðleysi, leyfa sér hér að tala um fjármál, — mennirnir, sem bera ábyrgð á því fyrirtæki, sem látið hefir tugi milljóna renna út í sandinn. Ég vil spyrja þessa góðu menn, hvað vér framsóknarmenn hefðum átt að gera, hefðum vér ekki átt að nota fé þjóðarinnar henni sjálfri til viðreisnar. Jón Þorláksson var með gengishækkuninni búinn að hálfdrepa Íslandsbanka og lama Landsbankann. Framlagið til Landsbankans var samþ. af öllu þinginu og að taka lán til þess. Auk þess var enginn banki til fyrir landbúnaðinn og allt þingið samþ., fyrir forgöngu forsrh., að taka lán til hans. Og ég vil skjóta því til þeirra manna, sem standa hér að Morgunblaðinu, að þeim var sannarlega ekki leitt, að lagt væri í fyrirtækin, því að eftir að Gísli Ólafson landssímastjóri hafði knúð það fram, að símastöðin væri ekki byggð á Arnarhóli, heldur keypt undir hana rándýr lóð í miðbænum, þá vildi hann samtímis því, að byggð var útvarpsstöðin og símahúsið, koma á talsímasambandi við útlönd, svo að kasta mætti sæsímanum. Morgunblaðið og hin íhaldsblöðin hafa ráðizt á framsóknarstj. fyrir það, að hún skyldi ekki um áramótin 1930 vilja bæta þarna við um einni milljón króna, til þess að hægt væri að tala frá Íslandi til útlanda í stað þess að senda skeyti. Svona var nú fyrirhyggjan hjá íhaldsmanninum Gísla Ólafson og þessi krafa hans var studd af núv. hv-. 4. þm. Reykv. og íhaldsblöðunum hér.

En það er meira, sem er athugandi viðvíkjandi þessum hlutum heldur en hin glögga viðleitni Framsóknar til viðreisnar landinu og til að leggja fé í það, sem er gott og nytsamt, og í það, sem verkin tala raunverulega. Ég hefi sýnt fram á, hvernig verkin tala hjá Íslandsbanka, og ég vil inna að því, að þeir menn, sem þar stóðu með íhaldinu, hafa meira en nokkrir aðrir skpað dýrtíðina í Reykjavík. Þegar Eggert Claessen settist í Íslandsbanka með 40 þús. kr. launum og hinir bankastjórarnir með 25 þús., þá fór þetta að hafa áhrif, og fleiri vildu lifa „flott“ en þessir menn. Ekkert hefir meir aukið óhófið í Reykjavík en þessar launagreiðslur og hið gálauslega fjársukk í gegnum bankann.

Það var eftirtektarvert hjá hv. þm. G.K., að hann kom með hliðstæða sönnun við mína ræðu um Íslandsbanka og viðurkenndi, að togarafélögunum, sem sannarlega hafa þó ekki verið undir stjórn annara en íhaldsins, væri illa stjórnað. Það var satt, sem hann sagði þá, þótt hann segi það ekki alltaf, þar sem hann sagði, að sjávarútvegurinn væri mergsoginn og máttvana og að hörmulegt væri að lifa hér í Reykjavík. Hverjir hafa stjórnað hér aðrir en íhaldið? Það hefir frá öndverðu haft hér meiri hl., og eftir lýsingu hv. þm. hefir það nú gengið svona þar. Hann minntist á það, að fáir atvinnurekendur við sjóinn myndu eiga fyrir skuldum um næstu áramót. Þetta er alveg áframhald af stjórn Íslandsbanka, og svo ber þessi maður sér á brjóst, þegar talað er um, að menn þurfi að lifa hóflega. Í staðinn fyrir framkvæmdaverk núv. stj., nýja vegi, hús, síma, ræktun og byggingar, kenntr í hlut fyrrv. stj. fátæktin og skuldirnar, togaraútgerðin „mergsogin og máttvana“, eins og hv. þm. sagði.

Ég hefi sýnt á þessum stutta tíma í kvöld, að það er líkt því og gengið hafi eldgos og harðindi yfir þjóðina, að Copland skuli hafa skaðað þjóðina hátt upp 1 4 millj. kr., Sæm. Halldórsson um 700 þús. kr. og Stefári Th. 11/2 millj. kr., og svo skuli ofan á þetta allt koma leiðandi maður frá einu stærsta útgerðarfélaginu hér á landi og segja þessa hörmulegu sögu af útgerðinni, þar sem Rvík lifir af 26 gömlum togurum og 10 gömlum línubátum, sem ekkert hefir verið gert til að endurnýja nú í mörg ár.

Nú skýt ég því til hinnar ágætu dómgreindar hv. 2. þm. Skagf., sem tók enska lánið og veðsetti tolltekjurnar, hvort honum finnist ekki mögru kýrnar vera farnar að ganga óþægilega nærri hans heimatúni.