27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Jón Ólafsson:

þetta mál, sem margir kannast við, hefir á undanförnum þingum hlotið meðmæli næstum ótrúlega margra þm. þó hafa verið til þeir þm., er aða hlið hafa eygt á þessu máli. Þeir komu í upphafi auga á það, sem nú er fram komið, að það mundi kosta ríkissjóð og aðra allmikið fé. Og nú er svo komið, að fyrirtæki þetta er orðið gjaldþrota, en því var einnig spáð. Og þótt leitað sé eftir í bezta sjónauka, þá er ekki hægt að sjá, að af öllu þessu fé hafi unnizt nokkurt gagn. Þar sem svo ósleitilega var mælt fyrir máli eins og gert var fyrir þessu, þá vantaði nógu víðan sjóndeildarhring til að sjá út yfir hann gyllingamúr, sem hlaðinn var kringum þetta mál, þegar verið var að koma því af stað. Gagnið, sem þetta átti að gera, hefir ekkert orðið, — þvert á móti. Þessar flugferðir hafa einungis verið til að ginna menn til að eyða fé af fordild og ráðleysi, með ferðum hafna á milli. Sumir lögðust svo smátt, að þeir töldu fram til ágætis flugferðunum, að vegna þeirra gætu menn fengið póst tíðar og reglulegar en áður. En það kom nú samt fljótt á daginn, að í þeim sökum varð enginn ávinningur. Pósturinn var ekki fluttur oftar en áður, og flugvélarnar reyndust ófærar til að halda áætlunarferðum um hásumarið jafnvel, þegar bezt og blíðust var veðráttan. Allar þær vonir, sem gefnar voru um ágæti þessa fyrirtækis, voru sviknar.

Það vill tíðum bera við, þegar um einhverjar nýjungar er að ræða, að menn verði ginnkeyptir fyrir þeim; þeir vilja spila sig sem framfaramenn, en gæta þess svo ekki að sjá fótum sínum forráð. Því að eins og komið er á daginn, er ekki hægt að halda hér uppi flugferðum eins og líka strax var fyrirsjáanlegt — nema með miklu meira fé en við höfum ráð á að leggja til. Nú er því komið svo, að gera verður út um, hvort landsmenn vilja sinna þessu áfram og leggja hart á sig að halda uppi flugferðum í landinu. Og hvaða ráð hafa svo þessir framfaramenn séð til þess að geta haldið áfram að þjóna fordild sinni og skemmtanafýsn með því að fljúga yfir láð og lög? Eina leiðin til þess að halda uppi flugferðum er að þeirra dómi sú, að skattleggja eina vesæla grein í atvinnulífi þjóðarinnar. Þeir einir, sem leggja fyrir sig að veiða síld, eiga að borga brúsann, og án þess að fá nokkuð í aðra hönd, því að mér hefir aldrei dottið í hug, að flugferðir í sambandi við síldarleit geti orðið okkur að nokkru minnsta gagni. Ég hefi upplýst um það áður, að síldin er sá fiskur, sem fljótur er að stinga sér og hverfa í djúpið. Þó að stórar síldartorfur hafi sézt vaða uppi við Langanes, og þótt skip, sem eru t. d. vestur undir Horni, bregði strax við, er þeim berst fregnin, þá er eins sennilegt, að síldin hafi stungið sér, svo að ekki sjáist urmull eftir af henni, þegar austur kemur. Það er því eins vist, ef farið verður eftir þessum síldarfregnum, að menn geri sér stórskaða með því. Enda hefir hv. þm. Ak. upplýst um, að þó skipum hafi borizt fregnir frá flugvélinni um mikla síld á einhverjum stað, þá hefir engum dottið í hug að fara eftir því, og var þeirra vitið meira.

Það er eftirtektarvert við ummæli hv. frsm. meiri hl., og kemur líka fram í nál., að honum finnst hér um óverulega skattlagningu að ræða. Þessi skattur er þó talið, að hafi numið um 70 þús. kr. síðastl. ár. Að vísu má segja, að þetta sé ekki stór fjárhæð samanborið við alla síldarútgerðina. En þó er óþarft að kalla hann litinn, þegar hann bætist ofan á aðra stóra skatta og tolla, sem verða að lokum drápsklyfjar á þessari atvinnugrein þjóðarinnar. Þegar um smáa skatta og marga er að ræða, þá er þá skylda löggjafans að skapa sér yfirlit yfir, hvort samanlögð skattabyrði sé hófleg á viðkomandi atvinnugrein. En mér finnst oft vilja brenna við, þegar verið er að leggja skatt á skatt ofan, að menn geri sér ekki ljóst, að hér er verið að gera byrðina of þunga, svo að sá, sem á að bera hana, heykist undir henni og verður því ekki sjálfbjarga. Mér hefir alltaf fundizt þessi flugskattur mjög ósanngjarn, og meira að segja ranglátur, auk þess sem hann er til engra nytja fyrir þá, sem honum er ætlað að koma að gagni. Mér finnst mjög ranglátt að skattleggja eina grein atvinnuveganna fyrir alla landsmenn. Og þó að forgöngumönnum þessa máls sýnist það gott og blessað, af því það kemur ekki við þeirra eigin pyngju, þá er það samt í mesta mata ósanngjarnt og ranglátt. Ef slíkur skattur á rétt á sér, þá á hann að ná til allra landsmanna. En eins og komið er fyrir okkur íslendingum, þá tel ég ekki tímabært að hugavert fyrir Alþingi að stuðla að því að skapa mönnum tækifæri til þess að eyða fé fyrir fordild eina.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um, að það gæti komið sér vel fyrir sjúklinga í sumum tilfellum að eiga þess kost að geta gripið til þessa farartækis. En hvaða gagn er að því fyrir sjúkan mann, sem þarf að halda á skjótri læknisaðgerð í sjúkrahúsi, að byggja á farartæki eins og flugvél, sem synt hefir sig að geta ekki flogið nema þriðja og fjórða hvern dag eða aðeins í blíðskaparveðri? Enda hefir það komið á daginn, að þegar grípa hefir átt til flugvélanna í þessu skyni, hefir það ekki orðið að neinu liði, og mun aldrei koma að haldi, a. m. k. með þeim flugvélum, sem hér hafa verið að undanförnu.

Annars er það dálítið merkilegt á þessum tímum, þegar mest er talað um kreppuna og atvinnuvegir þjóðarinnar eru svo lamaðir, að ekki er hægt að sjá fyrir, hvort þeir geti haldið áfram eða ekki, að þá um leið geri löggjafarnir á Alþingi ráðstafanir til þess að halda þessum rangláta skatti, sem kemur mjög hart niður á þeim, sem eiga að inna hann af hendi — eins og hv. þm. Borgf. benti réttilega á –, þegar síldin er verðlaus og menn fá ekki nema 2 kr. fyrir hverja tunnu, þá verða þeir samt að greiða skattinn, og gildir sama um hann, hvort hærra verð fæst fyrir síldina eða ekki.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að Norðmenn hefðu lært af okkur þessa dæmalausu nytjakúnst að elta síldartorfur úr loftinu. En ég held, að eitthvað sé saman við þetta frá honum sjálfum. Annars er allt öðru máli að gegna um ríki, sem hafa margar flugvélar og halda menn til þess að æfa sig við flug, og engin undrun, þó að reynt sé að hafa flugvélanna einhver ímynduð not, úr því flogið er á annað borð, því að sami er tilkostnaðurinn. En ég hefi nú samt fyrir satt, að Norðmenn hafi enga trú á síldarleit úr lofti og hafi komizt að sömu niðurstöðu og menn hér, að það sé algerlega tilgangslaust að ætla sér að nota flugvélar við síldveiðar.

Hv. frsm. sagði líka, að fyrir meiri hl. sjútvn. vekti m. a. að bjarga flugfélaginu, svo það falli ekki í kaldakol. En ég held, að það sé komið í svo mikið kaldakol, að ekki þurfi að hugsa um að endurreisa það. Það er sannreynt, að flugvélar þær, sem hér hafa verið notaðar, ganga fljótt úr sér, og þó að annað félag hugsi til að taka þær til starfrækslu, þá efast ég um, að þær reynist nothæfar. Flugmál okkar sem stendur eru reist á bjartsýni og því alveg haldlaust og ekkert nema kostnaður að reyna að halda flugferðum uppi. En hitt má vel vera, að við verðum einhverntíma svo auðug þjóð, að okkur muni ekkert um að hafa flugvélar til þess að leika okkur með að fljúga hafna milli, en það verður ekki á næstu árum, — það er eitt, sem víst er þegar þannig er komið fyrir félaginu, er ekki annað að gera en að halda veglega líkræðu yfir flugfélaginu og lofa því svo að sofa í friði. Okkur vantar fé, og auk þess er engin þörf á þessum farartækjum, sem vitað er um, að geta ekki komið okkur að neinu gagni.

Þegar menn tala um 70 þús. kr. sem einhvern smáskatt, þá skil ég eiginlega ekki, hvernig menn hugsa. Nú á tímum er 70 þús. kr. þó alls ekki sérstaklega smá fjárhæð. Ég geri líka ráð fyrir, að hver sem gæti komið með till. um að spara ríkissjóði 70 þús. kr. útgjöld nú á þessum tíma, hann mætti vel við afrek sitt una.

Að lokum vildi ég svo mega árétta það, sem ég hefi sagt hér á undan, með því að brýna fyrir hv. þdm., að okkur er vissulega meiri þörf að létta af sköttum en að bæta við þá eða halda við ranglátum og alóþörfum sköttum.