27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Sökum þess, að umr. hafa orðið miklar um þetta mál og talsverður ágreiningur um það, hvað gera beri út af frv., sem hér liggur fyrir, og ennfremur sakir þess, að ég hefi orðið að hafa nokkur afskipti af þessu flugmáli, þá þykir mér hlýða að gera grein fyrir atkv. mínu. Það er nú komið á daginn, sem spáð var á þingi 1930, að þetta flugfélag mundi ekki eiga sér langan aldur. Þá var, eins og kunnugt er, leitað til þingsins um 70 þús. kr. fjárveitingu til flugfélagsins. Nokkuð af þeirri fjárveitingu átti að ganga til rekstrar félagsins, en nokkuð til þess að kaupa flugvélar. Fjvn., sem varð samkv. sínu starfi að segja álit sitt um þessa fjárbón, lagði eindregið á móti henni. Það var fyrir hennar hönd, sem ég hafði orð í d. og mælti á móti fjárveitingunni, ekki fyrir þá sök, að ég væri á móti því, að þessi tilraun væri gerð, ef varlega væri farið, heldur af því, að mér þótti synt, að þetta myndi ekki verða starfrækt af heim hyggindum, sem nauðsynleg eru til þess að starfsemin gæti átt sér nokkurn aldur. Það var haft til réttlætingar og meðmæla með þessu máli, að erlendar stórþjóðir hefðu látið til sin taka í þessum flugmálum og hjá þeim hefði þessi starfsemi gert nokkurt gagn. Þá var bent á það af þeim, sem voru andvígir málinu, að veitt væri mikið fé í þessu skyni, að hér stæði öðruvísi á. Við værum fátæk og fámenn þjóð og sýnt væri, að þessi starfsemi gæti ekki borið sig og væri því ekki tímabær. Um líkt leyti — ég ætla að það hafi verið á sama þingi — var skattur af síldveiðum lögboðinn til styrktar flugferðum og sagt, að það gæti komið sjávarútveginum að gagni. Þá voru nokkrir útgerðarmenn, sem höfðu komið auga á, að þetta mundi ekki koma að verulegum notum, og ég man eftir því, að þáv. hv. 3. þm. Reykv., sem nú er 1. þm. Rang., benti á það með glöggum dæmum, að þetta mundi ekki geta komið að tilætluðum notum og að hann hefði ekki trú á þessari starfsemi. Spár okkar andmælenda hafa bókstaflega rætzt, og má segja, að enn verr sé komið með þennan félagsskap og fjárhagslega getu hans en nokkurn okkar hefir órað fyrir þessum 70 þús. kr. hefir alveg verið á glæ kastað, auk allra annara fjármuna, sem safnazt hafa hjá einstökum sveitum og bæjarfélögum, eins og hv. þm. Ak. hefir réttilega bent á. Og er ekki nóg með það, að árangurinn af þessari starfsemi sé í raun og veru alls enginn, heldur er það nokkurnveginn fullvíst, að undir mjög fáum kringumstæðum getur þetta að nokkru haldi komið. Þegar á allt er litið, þá undrar mig stórlega, að nokkur hv. dm. sjái sér fært að andmæla þessu frv. um að afnema þessi lög, og finnst mér það sérstaklega gegna furðu, þar sem öll starfsemi landsmanna er í kaldakoli og þjóðin sér tæplega fram úr, hvernig hún á að sjá fyrir bjargráðum. Síldveiðaskatturinn mun nema frá 500–600 kr. af smærri skipum og upp í 2 þús. kr. af stærri skipum. Í sumar munu margir hásetar ekki hafa haft nema um 200 kr. kaup og átt að fæða sig af því. Skatturinn er því á við kaup 2–3 háseta. Þó það megi segja, að þetta sé ekki mjög mikil upphæð af hverju skipi, borið saman við útgerðarkostnaðinn, þá er það svo, að hvert strá gerir skugga, og þetta verður til þess að íþyngja atvinnuveginum. Ég geri lítið úr þeirri ástæðu, sem færð hefir verið fram, að rétt væri að halda við þessum skatti, til þess að við kæmumst að betri samningum við ameríska flugfélagið. Fyrst og fremst er það allt í lausu lofti, hvers það kann að óska, því engin tilboð liggja fyrir frá því , og þó að einhver orð hafi fallið í þá átt, að ekki væri ólíklegt, að samningar gætu tekizt, þá kalla ég það litla ástæðu til þess að vera á móti frv. Ég ætla, að það sé skynsamlegast að samþ. þetta frv. og taka þá upp samninga við þessa amerísku menn, ef þeir þykja girnilegir, og greiða þá fyrir flugferðum, þegar maður veit, hvað um er að ræða og hvort okkur er fært að uppfylla þá samninga. Mér finnst ástæða til að taka til greina óskir útgerðarmanna um að vera lausir við skattinn. Mér hefir verið sagt af nákunnugum mönnum um þessa hluti, að síldarleit úr lofti sé miklum vandkvæðum bundin, fyrir utan það, að veðráttan er svo dutlungasöm, að sjaldan er hægt að fá svo heiðskírt veður, að hægt sé að leita að síldinni, því að það mun allerfitt að koma auga á hana. Mér er sagt, að illt sé að greina, hvort það eru síldartorfur eða t. d. ufsatorfur, og verður oft ekki skorið úr, hvort heldur sé. Auk þess hefir mér líka verið tjáð það, að þegar svo skipin koma á þann stað, sem ganga hefir sézt, þá sé hún með öllu horfin, enda gefur það að skilja, því að þessi fiskur er eins og nokkurskonar „flugfiskur“, sem er fljótur í ferðum, skýtur upp við og við hér og þar og er horfinn að lítilli stundu liðinni. Eftir því, sem ég veit bezt um álit útgerðarmanna, þá er það undantekningarlitið, að þeir telja, að síldarleit úr lofti sé mjög lítilsvirði fyrir síldveiðarnar. Og þá getur mér ekki sýnzt nein ástæða til þess að halda áfram að skattleggja þennan atvinnuveg í þágu flugferða hér á landi. Önnur gagnsemi af flugferðum, t. d. farþegaflutningur og póstflutningur, er hégómi einber. Sökum þess, hvernig þessu máli er háttað og sakir nauðsynja, sem á því eru að draga úr tilkostnaði við þennan atvinnuveg, sé ég mér ekki annað fært en að greiða atkv. með frv., og mig undrar stórlega, að hv. 1. þm. S.-M., sem er greindur, ráðinn og roskinn þm. og kann glögg skil á mörgu, skuli sjá sér fært að standa á móti frv. Ég geri ráð fyrir, að það sé af hans framfaraþrá og löngun til að bæta úr samgöngunum. En þó svo sé, að menn séu fúsir til framkvæmda og framfara, þá verður í þessu efni sem öðru að sníða sér stakk eftir vexti. Mér þætti leiðinlegt undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, ef menn brygðu fæti fyrir þetta frv., og ég vænti, að til þess komi ekki. Frekari umr. af minni hálfu geri ég ekki ráð fyrir, að verði um þetta mál, en ég vildi gjarnan, að það kæmi í ljós, hverjum augum ég líti á þetta mál.