30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég verð að segja það, að mér þykir það næsta undarlegt, að í máli eins og þessu skuli nú risa upp sumir hv. þm. og hefja það sem stundum hefir verið kallað þegar um önnur mál hefir verið að ræða, málþóf, um jafnsjálfsagt mál og hér er til umr. Ég veit ekki, hver meiningin er, hvort bak við þetta liggur einlægur og alvarlegur ásetningur þess efnis, að þetta sanngirnismál eigi ekki að ná fram að ganga, eða hvað það nú er, sem veldur því, að hv. þm. Dal. hefir á ný undir forustu hv. 1. þm. S.-M. umr. um þetta mál á þessu stigi. Ég hefi enn ekki tekið þátt í umr. um þetta mál. Ég skrifaði undir nál. minni hl. með hv. þm. Ak., því ég treystist ekki til að halda því fram, að Norðlendingar — því það eru aðallega þeir, sem um er að ræða — ætu einir að bera kostnað af reynsluflugi til að athuga, hvort hægt væri að hafa leiðbeiningu af flugvélum til síldveiða. Því meira hefir aldrei verið um að ræða. Það er alveg óþarfi að fara út í deilu um flugferðir almennt í sambandi við þetta mál. Og það er líka — því miður — óþarfi að vera nokkuð að spreyta sig á því, hvort þetta geti haft veruleg áhrif á aflabrögðin, að hafa flugvélar til þess að lesta að síldartorfunum. Það er alveg óþarfi á þessu stigi málsins, því það er alls ekki það, sem háir síldarútveginum mest, að hann finni ekki síldina. Fyrir afkomu útvegsins hefir þetta ekkert að segja, því skipin geta fundið miklu meiri síld en hægt er að selja. Ég býst því miður við því, eftir því sem viðhorfið er nú, að síldarútvegurinn verði ákaflega lítill í sumar. Í fyrra var eins og menn vita uppgripaár að afla til, og þá gerðu menn út á síld, vonandi það, að saltsíldarverðið yrði tæplega lægra en 6 kr. tunnan; um bræðslusíldarverðið var nokkurnveginn vitað, hvað það yrði. þá var það þannig, með því að gera ráð fyrir normalgróða á þessu verði, sem virtist ekki vera úr hófi spennt, að útvegurinn gat vonazt eftir sæmilegri afkomu. En nú horfir þetta allt öðruvísi við. Það er ekki sjáanlegt, að síldarverksmiðjan geti borgað hærra verð nú en síðasta ár, og það verður ekki gert, nema þingið breyti l. um rekstur verksmiðjunnar, en það hefir engan lit sýnt á því ennþá. Það lítur því þannig út, að ef ekki verður gerð ráðstöfun til þess, að síldarbræsla ríkisins megi borga a. m. k. 4,50 kr. fyrir málið, þá muni engir fást til að fara á síld, því útlitið er þannig með saltsíldina, að ég skil ekki, að það verði nema mjög fá skip, sem fara á síld með nokkru tilliti til þess að geta fengið sæmilegt verð fyrir hana. Á síðasta ári munu meðallínubátar hafa tapað hér um bil 5 þús. kr. á útgerðinni, og þá báru hásetar mjög lítið úr býtum, 300–400 kr., því að tapið lendir aðallega á þeim, þegar svo fer sem fór á síðasta ári með síldarútgerðina. Hvers vegna eru menn þá að deila um það, hvort eigi að létta þessum skatti af síldveiðimönnum eða ekki? Hvernig stendur á því, að menn eru að spreyta sig á löngum ræðum um það, hvort eigi að létta af þessum skatti, sem aldrei er annað en blóðtaka á síldarútveginn, þegar menn sjá, ef þeir vilja sjá það, að þessi atvinnuvegur er allur í rústum? Svo er hitt, að jafnvel þó skatturinn sé ekki tilfinnanlegur og jafnvel þó betur stæði á og betur áraði fyrir síldarútveginn en nú er, þá sjá það allir sjálfir, að það er ekki annað en misrétti að taka þessar 50 þús. kr. af síldarútgerðarmönnum bara til þess að geta haldið uppi starfsemi flugfélagsins áfram. Ég vil taka undir með þeim, sem segja, að þeir, sem vilja offra landsfé í að halda uppi flugferðum, verða þá að fallast á, að þetta sé gert af fé almennings, en ekki einstaklinga í landinu. Það þarf heldur engan að undra, þó hv. þm. Ak., sem er sérstaklega fulltrúi fyrir þá, sem hér eiga hlut að máli, beiti sér af kappi fyrir því að fá þessum skatti af létt. En hitt gegnir furðu, að fulltrúar þeirra kjördæma, sem hér hafa engra hagsmuna að gæta, rísa upp með miklum móði til þess að halda þessum rangláta skatti við. Og ef sú framkoma og það offors, sem fram kom í ræðu hv. þm. Dal., er að undirlagi einhverra utan þings, og sé hann sendur inn á þing með þennan gauragang út af jafnsjálfsögðu máli og þessu, þá sé ég ekki annað en að ógagn muni leiða af slíkri framkomu fyrir flugfélagið. Það er alls ekki til þess að afla flugfélaginu samtíðar meðal þm., að menn séu sendir inn á þing til þess að halda fram hreint og beint ranglæti í þeim efnum að kosta flugferðir. Ég vil fyrir mitt leyti alls ekki ljá lið mitt til þess.