30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Bergur Jónsson:

Ég var einn af þeim, sem skrifuðu undir álit meiri hl. sjútvn., og lögðum vér til, að málið yrði afgr. með rökst. dagskrá við 2. umr. En þegar atkvgr. fór fram, vantaði 8 þm. í d., og þess vegna er alls ekki full vissa fyrir því, hvernig meiri hl. þessarar hv. d. lítur á málið. Finnst mér þess vegna full ástæða til, að málið sé nú nokkuð rætt og undirbúið áður en til atkvgr. kemur. Það er eftirtektarvert, að þeir, sem hafa talað hér fyrir frv., eru alltaf að tala um fortakslausan og skilyrðislausan skatt, sem ætti að létta af útveginum. En skatturinn er skilyrðisbundinn í l. Í 1. gr. stendur: .... „meðan flugvélar eru notaðar til síldveiða“ o. s. frv., og í 2. gr. er gert að skilyrði, að haldið sé uppi stöðugri síldarleit um lögákveðinn tíma, frá 15. júní til 15. sept. Það er ekki hægt að leggja á þennan skatt, og hann verður heldur ekki á lagður, nema þessu skilyrði sé fullnægt. Það er því rangt að tala um að létta skatti af síldarútveginum eða demba á hann skattinum, eins og sagt hefir verið, að við ætlum að gera, sem ekki viljum samþ. frv. Það er óvíst, hvort þessi skattur verður notaður í sumar. Ég held, að það séu litlar líkur til, að svo verði. Aðalatriðið fyrir mér er, að ég vil leggja mikið upp úr flugsamgöngum. Ég álít, að þær séu svo mikilvægar fyrir okkar þjóð, að ekki sé rétt af þinginu að taka neinn möguleika burtu fyrir því, að hægt sé að koma þeim á eða halda þeim uppi. Mér finnst það vera sérstök vantrú á okkar þjóð, að okkur einum ætti að vera ofvaxið að halda uppi þessum glæsilegu samgöngum, sem alstaðar annarsstaðar eru starfræktar, þó vitanlegt sé, að hér er nauðsynin brýnni en víðast annarsstaðar, vegna strjálbyggðar og stærðar landsins. Við þá menn, sem ekki vilja lita á ágæti flugsamgangna, þýðir ekki að ræða þetta. Sumir, sem talað hafa hér fyrir frv., hafa ekki virzt leggja mikla áherzlu á, að vér gætum notað þessi glæsilegu samgöngutæki, sem allar aðrar menningar þjóðir nota eftir mætti. þeir, sem hafa talað fyrir frv., hafa að allega borið fram þrjár ástæður. Í fyrsta lagi, að skatturinn, svo framarlega sem hann er notaður, ofþyngi síldarútveginum. Ég get ekki séð, að mikið vit sé í því að reka atvinnuveg, sem er svo aumur, að hann getur ekki borið annað eins gjald og 10 aur. af hverri tunnu í nauðsynlegum tilgangi. Í öðru lagi hafa þeir haldið fram, að síldarleit af flugvélum væri gagnslaus. Móti þessu mæla vottorð margra kunnugra og sérfróðra manna á þessu sviði. Þriðja ástæðan, sem komið hefir fram, er, að af flugferðunum sé ekki neitt verulegt gagn fyrir okkur. Þar er ég á andstæðri skoðun. Hv. þm. Ak. segir, að flugvélar séu aðeins til skemmtunar, en ekki til neins gagns, því þær geti ekki flutt þungavöru. Það er rétt, að þær geta það ekki enn sem komið er, en ég vona, að hv. þm. sé ekki svo mikill spámaður, að hann geti sagt um það með vissu, að flugvélarnar verði aldrei svo vel úr garði gerðar, að þær geti flutt þungavöru. En í okkar strjálbyggða landi er geysilega mikið gagn af flugvélunum til fólksflutninga. Ég get bent hv. þm. á, að hvað eftir annað hafa flugvélar bjargað lífi manna, sem hafa verið fluttir dauðvona til Rvíkur og alls ekki hefði verið hægt að bjarga, ef ekki hefði verið kostur á svo góðu samgöngutæki.

Hv. þm. Ak. bar saman byrjun bifreiðanotkunar og flugvélanotkunar hér á landi og sagði, að flugvélar væru ótímabærar hér. Hver getur sagt um það, hvenær þær eru ótímabærar? Ef við reiknum alltaf svo, að ennþá sé ekki tímabært að byrja á framförum, þá er hætt við, að seint komi til framkvæmdanna. Það eru engin rök í málinu, þótt einhverjir norðlenzkir útgerðarmenn óski ekki eftir síldarleit. Andúð þeirra þarf ekki að stafa af öðru en því, að þeir líti þarna á peningana, sem þeir telja sig verða að láta samkv. 1. Má einnig vera, að á meðal þeirra sé hópur manna, sem er álíka þröngsýnn og hv. þm. Ak. og líti á flugsamgöngur á líkan hátt og hann.

Mér þótti það hálfeinkennilegt, þegar hv. þm. Vestm. fór að átelja hv. þm. Dal. fyrir að beita sér fyrir þessu máli, þar sem hans sýsla hefði engra hagsmuna að gæta. Vitanlega hefir öll íslenzka þjóðin og Dalamenn eigi að síður en aðrir hagsmuna að gæta í þessu máli.