12.05.1932
Efri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Ég veit ekki, hverja vissu hv. 2. þm. S.-M. getur haft fyrir því, að síldarleitinni verði ekki haldið uppi í sumar. Það kom a. m. k. fram í umr. málsins í Nd., að þetta gæti alveg eins orðið, en vel má þó vera, að eitthvað hafi komið fram í málinu síðan, sem mér er ókunnugt um.

Það var ekki rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., að aðalástæðan fyrir mér í þessu máli væri sú sannfæring, að ekkert gagn væri að síldarleitinni. Aðalástæðan fyrir mér er sú, að þetta er gert í óþökk allra þeirra, sem hafa hagsmuna um það að gæta, og ég tel það í senn ástæðulaust og rangt af þinginu að vera að þröngva þessu upp á menn, úr því að þeir hafa enga trú á því og vilja engu til þess kosta.