26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Þorleifur Jónsson:

Ég bjóst alltaf við því, að hv. þm. Barð. myndi leggja á móti brtt. okkar hv. þm. V.-Sk. Hann sagði, hv. þm., að það væri ekkert réttlæti í því, að þau héruð, sem slyppu bezt við berklaveikina í það og það skiptið, fengju endurgreiðslu á tillagi sínu frá ríkissjóði. Um þetta held ég að lengi megi deila. Annars vil ég benda hv. þm. á, að grundvöllurinn undir þessum skatti er ekkert sérstaklega réttlatur. Það mætti alveg eins fá alla skatta ríkissjóðsins með því ai5 leggja þá alla á sýslufélögin eftir höfðatölu hjá þeim. Ég hefi til fróðleiks aðgætt, hve mikið ríkissjóður greiðir til berklavarna á hvern íbúa í hinum ýmsu sýslufélögum. Vegna Akureyrar greiðir ríkissjóður 16 kr. á hvern íbúa og vegna Hafnarfjarðar 15 kr. þessi háa greiðsla liggur sennilega mikið í því, að rétt hjá Akureyri er heilsuhæli fyrir berklaveika menn, en í Hafnarfirði er sjúkrahús, sem nær hver sjúklingur er drifinn á, og svo Vífilsstaðahæli við hliðina á bænum. Þá eru þrjú lögsagnarumdæmi, sem greitt er fyrir 12 kr. á mann, og tvö með 10–11 kr. á mann, en lægst er Vestur-Skaftafellssýsla með kr. 0,98 á mann. Þetta sýnir gleggst, hve misjafnlega mikið ríkissjóður þarf að borga vegna berklasjúklinga hinna ýmsu héraða.

Þá sagði hv. þm. Barð., að við hefðum eins getað haft brtt. okkar þannig, að fella niður 1. gr. frv., en þetta er ekki rétt, því að þá hefði síðasti málsl. 4. málsgr. í 1. gr. laganna frá 31. maí 1927 staðið eftir óbreyttur, en það mátti ekki vera vegna 2. gr. frv. Fjórða málsgr. 1. gr. 1. frá 1927 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Allur sá kostnaður, sem hér er greindur, greiðist úr ríkissjóði, en sérhvert sýslufélag og bæjarfélag greiði upp í hann gjald til ríkissjóðs, er nemi 2 kr. fyrir hvern mann í lögsagnarumdæminu. Fari gjald þetta fram úr 2/5 kostnaðar við berklavarnir vegna sjúklinga þeirra, er dvöl áttu í héraðinu, skal endurgreiða það, sem umfram verður“. Svo kemur dálítið meira: „Ennfremur greiði sjúkrasamlag fyrir meðlimi sína ákveðið gjald, sbr. 2. gr. Eindagi gjaldsins er 15. ágúst ár hvert“. Það er þessi síðasti málsl., sem fella verður burt úr málsgr. eins og hún er í lögunum, því að hann kemur við gjaldi sjúkrasamlaganna, sem með 2. gr. frv. er ætlað að falla burt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að karpa unt þetta frekar, því að ég býst við, að hv. þdm. geri sér fyllilega ljóst, hvað hér er um að ræða.