02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Vilmundur Jónsson:

Ég hefi borið fram brtt. við þetta frv., á þskj. 590, um annað orðalag á 1. málsgr. 14. gr. berklavarnalaganna og 5. málsgr. sömu gr., sem fara í þá átt, er áður hefir verið um rætt og fengið hefir góðar undirtektir hér í hv. þd., að fastákveða, að semja skuli fyrirfram við sjúkrahús landsins, sem hæf teljast, um sjúkravist fyrir berklasjúklinga. Það hefir reynzt erfitt eftir á að jafna deilur, er risið hafa út af dvalarkostnaði slíkra sjúklinga. En með því móti, að samið sé um vistina fyrirfram, er sett undir þann leka. Nú má gera ráð fyrir, að berklasjúklingar þurfi við og og við, a. m. k. um stundarsakir, að dvelja á sjúkrahúsum, sem ekki hefir verið samið við og heilbrigðisstj. telur eigi þannig úr garði gerð, að til þess séu fyllilega hæf að hýsa berklasjúklinga yfirleitt. En til þess að sú dvöl komi ekki hart niður á sjúklingum, sem ekki geta komizt á annað sjúkrahús vegna fjarlægðar eða annars, þá er heimilað að greiða fyrir þá í samræmi við dvalarkostnað á sjúkrahúsi, er samið hefir verið við.

Þetta mál hefir áður fengið góðar undirtektir hér í hv. hd., þó að það hafi ekki enn komizt fram. Einu sinni vildi það einkennilega slys til, að brtt. við berklavarnalögin, sem fór í þessa átt, fell hér í þd., þó að enginn greiddi atkvæði á móti henni, eins og hæstv. forseti mun minnast. Nú vona ég, að málið gangi fram á eðlilegan hátt og verði afgr. til Ed. án slysa og tafar.