02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Guðmundsson:

Ég gleymdi að taka það fram áðan, að það er hortittur í brtt. að segja, að stjórnarráðið skuli semja við sjúkrahúsin, í stað þess að það ætti að vera ráðuneytið. Það er vitanlega ekki meiningin, að allt stjórnarráðið eigi að hafa þetta með höndum, heldur það ráðuneyti, sem málið heyrir undir og verið hefir dómsmrn. Á síðari árum hefir verið reynt að forðast orðið „stjórnarrað“ í lagamáli, þegar aðeins er átt við ákveðnar deildir þess. Og ég vil skjóta því til hv. flm., hvort honum þykir ekki betra að setja ráðuneytið í staðinn. Mætti flytja um það skrifl. brtt. (EA: Það mætti líka setja ráðherra). Já, það er eins rétt.

Það hefir stundum litið svo út, að erfitt sé að semja um ljóslækningakostnaðinn fyrir berklasjúklinga, en vel má vera, að það geti tekizt, og ég get tekið það trúanlegt, sem hv. flm. segir um þetta, af því að hann er kunnugur málinu og hlýtur að vita mest um þetta sem landlæknir. En ég sakna þess, að það er ekki tekið fram, að samningarnir við sjúkrahúsin skuli bornir undir landlækni; þó að ráðuneytið leiti máske til hans, þá er hvergi gert ráð fyrir því. Og betra hefði verið að taka það fram, að ráðun. væri skylt að leita tillagna landlæknis. Ég býst við að greiða atkv. með þessum brtt., ef vænta má, að öllum sjúkrahúsum á landinu verði sýnd sanngirni í þessum viðskiptum.