03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

F. h. fjvn. hefi ég ekki mikið að segja um þetta frv. N. hefir haldið fund um það og komið sér saman um að fallast á frv. eins og það kom frá Ed. það er þó engan veginn svo, að n. sé ánægð með afgreiðslu frv. frá Ed. Þar hefir aukizt talsvert halli sá, sem var á frv., svo að nú er hann um 600 þús. kr. En þrátt fyrir það, þótt hallinn sé þetta mikill, og útgjöldum hafi verið bætt við í Ed., sem full ástæða væri til að taka út aftur, þá hefir n. ekki gert ráð fyrir því, að breyt. á frv. mundu fást, svo róttækar sem þyrfti, og því ekki ástæða til að lengja þingtímann þeirra hluta vegna.

Þá er og þess að geta, að nú eru miklar líkur til, að það frv., sem fjvn. þessarar deildar bar fram um frestun á framkvæmd nokkurra laga, verði samþ. Verði það frv. að lögum, þá sparast ríkissjóði þar útgjöld, sem áætlað hefir verið að mundu hrökkva að mestu leyti til þess að mæta þessum greiðsluhalla.

Þriðja ástæðan til þess, að n. hefir ekki viljað bera fram brtt. við frv., er sú, að ef á annað borð er farið að opna fjárl. í þessari d., þá má búast við því, að það verði sótt talsvert fast af ýmsum hv. þdm. að koma inn í frv. nýjum útgjaldaaukningum, eins og hefir sýnt sig áður fyrr við meðferð þessa máls í þessari d. Það hafa stundum verið samþ. ýmsir útgjaldaliðir þrátt fyrir það, þótt fjvn. hafi eindregið mælt á móti þeim. Þetta eru ástæðurnar, sem liggja til þess, að n. vill ekki hrófla við frv., þó að hún sé alls ekki ánægð með það.

Annars er það um frv. að segja, að tekjur samkv. rekstrarreikningi eru 101/2 millj. kr. og innborganir á sjóðsyfirliti um 1/2 millj. kr., svo að allar innborganir samkv. frv. eru 11 millj. kr. Greiðslur samkv. rekstrarreikningi eru 10 millj. 300 hús. og útborganir samkv. sjóðsyfirliti 1 millj. 240 þús. kr., eða allar útborganir um 11 millj. 600 þús. kr. Kemur þá fram greiðsluhalli um 600 þús., eins og ég gat um.

Ég finn svo ekki ástæðu til að rekja þær einstöku breyt., sem orðið hafa á frv. í Ed. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi fylgzt með í því, og er því ástæðulaust að rifja það upp nú.

Það liggur fyrir ein brtt. við frv. á þskj. 830. Ég þarf ekki að taka það sérstaklega fram um hana, að n. leggur til, að hún verði felld, þar sem hún leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.