14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

35. mál, lækningaleyfi

Jónas Þorbergsson:

Við hv. þm. Borgf. höfum leyft okkur að bera fram brtt. við 5. gr. þessa frv. á þskj. 195, þess efnis, að smáskammtalæknar, sem aðeins stunda meðalalækningar, séu undanþegnir ákvæðum þessara laga. Eftir því sem bezt er vitað, þá byggja þeir á öðrum meginreglum um meðalanotkun en þeir læknar, sem ætlazt er til, að fái lækningaleyfi samkv. þessu frv. En þar sem þessum smáskammtalæknum eru ekki áskilin nein réttindi samkv. þessu frv., virðist ekki ástæða til að leggja á þá skyldur með ákvæðum þess. Þess vegna viljum við flm. undanþiggja þá ákvæðum þessa frv., ef að lögum verður.

Við nánari athugun hefi ég orðið þess var, að brtt. okkar er sett á skakkan stað í frv., og þess vegna munum við taka hana aftur til 3. umr. Ég skal geta þess, að ég mundi fyrir mitt leyti verða tilleiðanlegur til að taka hana aftur til fulls, ef brtt. hv. 1. þm. S.-M. nær fram að ganga. En ho vil ég taka undir það með hv. frsm., að réttara sé að nota orðið lækningar heldur en lækningaatvinnu eins og stendur í brtt., það þýðir sitt hvað eftir mínum skilningi. Og hygg ég, að þetta yrði þá praktiserað þannig, að landlæknir sæi í gegnum fingur við smáskammtalæknana, sem ætla má, að ekki vinni tjón, en að áliti margra manna hafa gert mikið gagn. Ég hygg, að samkv. slíku orðalagi mundi landlæknir ekki gera gangskör að því að svipta þessa menn rétti til þess að fást við lækningar.