03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

1. mál, fjárlög 1933

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil aðeins árétta það, sem hv. þm. Seyðf. sagði um þessa till. okkar. Ég álít það alls ekki verjandi að afgr. fjárlögin þannig, að ekkert fé sé þar veitt til atvinnubóta. Þeir, sem kunnugir eru í kaupstöðum og sjóþorpum, vita, að hjá því verður ekki komizt, að það opinbera leggi til einhvern styrk, ef á að halda fólkinu lifandi.

Það er ekki aðeins í Reykjavík, heldur einnig í kaupstöðum og kauptúnum úti um allt land, að verkamenn eru atvinnulausir, og er ekki sjáanlegt, að það fari batnandi, heldur þvert á móti. Atvinnan hefir ekki verið meiri en svo, að þeir, sem betur hefir gengið, hafa ekki gert betur en að hafa ofan af fyrir sér, þeir, sem verr hefir gengið, hafa ekki einu sinni haft nóg sér til matar. Hvernig mun það þá verða, þegar fram á sumarið kemur og opinberar framkvæmdir eru sama sem engar og mjög litla vinnu að fá hjá einstökum framleiðendum? En það verður ekki þolað, að þing og stj. láti það afskiptalaust, þótt verkalýðurinn gangi sveltandi um göturnar og fái ekkert að gera.

Hæstv. fjmrh. vill ekkert tala um þetta mál, sem er þó lífsspursmál fyrir mörg þúsund fullorðinna manna og þeirra skyldulið. Hæstv. ráðh. segir, að betra sé að fá einhvernveginn öðruvísi heimild um þetta, en ég álit, að ef á að gefa heimild, sem ætlazt er til, að verði notuð, þá eigi að gefa hana í fjárl., svo að har sjáist sú raunverulega afgreiðsla fjárlaganna.

Ég tel, að þeir hv. þm. taki mikla ábyrgð á sig, sem greiða atkv. á móti þessari till. Ég skal svo að síðustu taka það fram, að ég ber ekki það mikið traust til hæstv. fjmrh., að ég trúi honum til að veita fé til atvinnubóta, ef aðeins er gefin heimild til þess í þál. Það verður að vera skýlaust ákvæði fjárl., sem neyði stj. til þess, ef hún vill ekki gera það viljug.