14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

35. mál, lækningaleyfi

Einar Arnórsson:

Ég skal út af ummælum hv. þm. G.-K. viðvíkjandi vitnisburðarskyldu lækna geta þess, að eftir gildandi reglum er læknum engin undanþága veitt í því efni. (ÓTh: Það ber vott um, að ég hafi ekki verið lengi í skóla hjá prófessornum, þar sem hann er nú búinn að kenna mér þetta tvisvar). Ég veit ekki, hve vel hv. þm. hefir tekið eftir því þá, en ég vil láta þetta sjást í minni eigin ræðu, en ekki sem innskot í rætt hv. þm. G.-K.

Ég er ekki óánægður með ákvæði 9. gr. um þetta atriði. Hitt er alkunna, að það hefir ekki staðið ára, heldur aratuga deila um það í flestum löndum Norðurálfunnar, hvort læknar ættu að hafa undanþágu að nokkru eða öllu leyti í þessu efni. Hér er farinn meðalvegur, sem ég býst við, að megi vel við una, eins og ákveðið er í 10. gr., því að eftir henni þurfa læknar ekki að bera vitni, nema sérstaklega standi á.

Þá eru það nokkur atriði úr ræðu hv. þm. Ísaf., sem ég þarf að svara. Ég get ekki vikið frá því, að ég tel vafasamt, þótt gjaldskráin öðlaðist gildi, að eldri læknar myndu fara eftir henni, læknar, sem hafa fengið sín réttindi fyrir löngu eða fyrir skömmu áður en lögin öðluðust gildi. Og þótt gjaldskrá hafi verið sett fyrir héraðslækna, mun það að nokkru leyti stafa af því, hve fáir þeir voru og fólkið ofurselt þeirra kröfum. Þótti því hyggilegra að setja þeim læknum gjaldskrá, en af því leiðir ekki, að setja þurfi gjaldskrá fyrir aðra en héraðslækna, sem eru fastir starfsmenn og fá hæfileg laun. Og þar sem þeir fá slík laun, eru greiðslur til þeirra fyrir önnur störf í þágu hins opinbera eða einstaklinga hugsaðar sem uppbót. Annars gerir hv. þm. Ísaf. of mikið úr því , að menn væru ofurseldir læknunum, ef ekki væri gjaldskrá. Ef læknir setur meira en sanngjarnt er, þá er engin skylda að greiða það umyrðalaust fremur en aðrar ósanngjarnar kröfur. Ef á þarf að halda, geta læknarnir borið sín málefni undir dómstólana og fengið mat annara manna, þ. á m. landlæknisins, hv. þm. Ísaf. (SvbH: Eru lög um það?). Það er almenn regla. Ef ég set eitthvað ósanngjart upp fyrir mitt starf, þá má fara með það fyrir dómstólana. þetta vita allir og hv. 2. þm. Rang. sennilega líka. Ef presturinn að Breiðabólsstað í Fljótshlíð setti upp 1000 kr. fyrir að búa til eina líkræðu —. (SvbH: Hann hefir gjaldskrá). Ja, það er nú svo, að ég held, að prestarnir séu eins sekir í því, að fara ekki eftir sinni gjaldskrá eins og aðrir. Svo er það með þessar gjaldskrár, að það er auðvelt að setja þær á pappírinn, en ekki eins auðvelt að sjá um, að þeim sé fylgt. Stundum er það, að þeir, sem njóta t. d. læknishjálpar, vilja gjarnan greiða hætta en gjaldrskáin segir, af því að þeir telja verkið þess virði.

Hv. þm. Ísaf. svaraði fyrirspurn minni um það, hvernig færi, ef ekki næðist samkomulag við læknastéttina um gjaldskrána, með því að vísa til niðurl. 13. gr. frv. um, að þá settu aðrir gjaldskrána. Ég vissi auðvitað af þessu ákvæði 13. gr., en það leysir að minni hyggju ekki spursmálið, vegna þess að ég tel, að eldri læknar myndu ekki verða bundnir við þá gjaldskrá, sem sett yrði, og þá er ekki önnur leið en sú, að hleypa málinu fyrir dómstólana. Ef einhver greiddi meira en gjaldskráin segir til, og landlæknir kærði svo lækninn fyrir að hafa brotið gjaldskrána, þá mátti þannig fá leyst úr málinu.

Hv. þm. Ísaf. segir, að í 13. gr. sé lauslegur grundvöllur lagður undir gjaldskrárakvörðunina. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm., því að það er beinlínis ætlazt til þess, að lögskipað verði eftir hvaða mæli- kvarða gjaldskráin verði sett. Í 2. málsgr. 13. gr. segir fyrir um það. Ég ætla ekki að lesa gr. upp, þar sem allir hv. þdm. hafa átt kost á að kynna sér hana. Í 4. lið sömu gr. segir: „Semja má um allt að þriðjungi hærri greiðslur til handa sérfræðingum fyrir störf, er heyra til sérgrein þeirra“. Hér eru líka settar algerlega fastar skorður fyrir því, hvernig þessi gjaldskrá eigi að vera. Ef t. d. almennur læknir má taka 3 kr. fyrir viðtal, þá vænti ég, að þriðjungurinn af 3 kr. sé 1 kr., og þá má sérfræðingurinn taka 4 kr. Þetta vona ég, að sé rétt skilið. Ég hefi sjálfur verið 2 tíma í einu hjá einum af sérfræðingum bæjarins, og hann gerði að því er mér virtist ýtarlega rannsókn á því, sem fyrir lá, og eftir þessu hefði hann ekki mátt taka nema 4 kr. fyrir það. Hann hefði ekki mátt taka nærri eins hátt kaup fyrir sinn tíma eins og t. d. stundakennarar í skólum hafa fengið, og án þess að gera lítið úr þeirra starfi, þá hefi ég meira álit á starfi þessa kollega hv. þm. Ísaf. Ég álit, að hann hafi átt miklu meira en 4 kr. fyrir starf sitt þá, eins og hann líka auðvitað setti upp. Ég held því, að þessi grundvöllur, sem þarna er lagður, geti verið varhugaverður.

Út af því, sem þeir töluðu um, hv. þm. Ísaf. og hv. þm. G.-K., hvað hér væri ódýr læknishjálp á móts við það, sem annarsstaðar tíðkast, þá má vel vera, að hv. þm. Ísaf. hafi rétt fyrir sér í því, að það sé allmikill hluti fólksins erlendis, sem á kost á ódýrari læknishjálp en hér er um að velja, en ég get ekki annað en samsinnt skýrslu hv. þm. G.-K. um það, að þeir sérfræðingar, sem ég hefi komizt í kynni við erlendis, hafa reynzt mér miklu dýrari en samsvarandi sérfræðingar hér í Rvík. Ég skal nefna nokkur dæmi. Í Lundúnum þurfti ég að fara til sérfræðings í augnsjúkdómum, kom tvisvar til hans og var hjá honum samtals svona 1/2 klst. til 3/4 stundar og hann setti upp 3 guineur eða h. u. b. £3 sh. 3. Er þetta mjög dýrt í samanburði við það, sem ég hefði þurft að greiða hér í Rvík, og ekki hefði orðið meira en 10–15 kr. Sömu læknisverk og greiddar eru fyrir 30 kr. hér, verður að greiða með 50 d. kr. í Kaupmannahöfn. Svona er mín reynsla þaðan, að sömu verkin verða að greiðast þar h. u. b. tvöfalt á við það, sem hér er.

Ég held, að yfirleitt megi segja um læknana hér á landi, sérfræðinga sem aðra, að þeir séu mjög hóflegir í kröfum sínum, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess, að fyrir mikið af verkum sínum fá þeir ekkert.

Það vita allir, að það er eins með greiðslur fyrir þau verk og t. d. vörur í búð, að skilamennirnir og þeir, sem eitthvað geta, greiða fyrir þá, sem ekki vilja eða ekki geta greitt. Þetta er nú einu sinni svo. Það er létt verk að setja tæta á vörur, t. d. kaffipund, ennfremur er létt verk að setja taxta á störf presta, því að það er nákvæmlega sama starf, sem fer t. d. í það að skíra börn fátæklinga og ríkra manna. En þetta er miklu erfiðara með læknisstörf, vegna þess, hve þau eru ósamkynja, og erfitt að finna samnefnara fyrir þau. T. d. eru viðtöl mjög mismunandi. þau geta eytt fleiri en einni klst. af dýrmætum tíma læknisins, en stundum standa þau ekki lengur en 5 mín. Þarna væri mjög ranglátt að banna lækninum að taka meira fyrir lengri tímann, og gæti það leitt til þess, að læknar létu sjúklinginn koma oftar en beinlínis væri þörf á.

Ég vil beina því til hv. þm. G.-K., hvort ekki væri réttara að vísa þessu máli frá mér rökst. dagskrá, mér finnst ekki viðeigandi að leggja til, að það sé fellt, þar sem allir eru sammála um nauðsyn slíkra laga, og ágreiningur er aðeins um einstök atriði.