19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

35. mál, lækningaleyfi

Vilmundur Jónsson:

Ég býst við, ef þessi dagskrá verður samþ. og eftir henni farið, að sá lagabálkur, sem gert er ráð fyrir, að verði lagður fyrir næsta Alþ., verði enn verr undirbúinn, og það miklu verr en þetta frv. Ef tími ætti að vinnast til þess að endurskoða alla heilbrigðislöggjöfina fyrir næsta þing, yrði vafalaust flausturslegur frágangur á einhverju af því starfi. Slík endurskoðun mundi þurfa að taka mörg ár. Það er ekki nóg til að fullnægja dagskránni að setja lög um starfssvið lækna, heldur yrði slík endurskoðun að ná yfir allar greinar heilbrigðismálanna, skipun læknishéraða, sjúkrahús, sóttvarnir, heilsuverndun, réttarstöðu og meðferð geðveikra og fávita, sjúkratryggingar, lyfsölu, eftirlit með matvælum o. s. frv., sem of langt yrði upp að telja. Ef þetta hefir vakað fyrir Læknafél. Rvíkur, og annað verður ekki séð at till. þess, þykir mér það nokkuð fljótfærnislega athugað, og það er efalaust einnig fyrir fljótfærnislega athugun hv. þm., að hann hefir tekið að sér að flytja þetta mál hér.

Eftir því, sem lagafrv. eru venjulega undirbúin, verð ég að halda því fram, að þetta frv. sé mjög sæmilega undirbúið. Ég hefi byggt það á margra ára reynslu erlendra lækna og löggjafa, og læknadeild háskólans og Læknafél. Ísl. hafa starfað að því með mér af kostgæfni og með góðu samkomulagi. Ágreiningurinn við Læknafél. Rvíkur er aðeins um það, hvort eigi að setja praktiserandi læknum gjaldskrá. En sá ágreiningur mun ekki vera við mig einan, heldur skilst mér hann muni vera við mikinn meiri hl. þessarar hv. d. og alls þingsins, án tillits til pólitískra flokka, og mun enginn undirbúningur duga til að jafna þann ágreining. Ég held því , að óþarfi sé að fresta málinu vegna ónógs undirbúnings, enda er það ekkert einsdæmi, ef gallar koma fram í lögum í notkun, sem vel má verða, að hér eigi sér stað, að þeim sé breytt síðar. Á fundi í Læknafél. Rvíkur var þetta mál rætt í margar klst., að mér viðstöddum, og kom í ljós, að enginn ágreiningur, sem ágreiningur gat heitið, var viðvíkjandi frv., nema um þetta eina atriði, sem ég nefndi, og hefi ég margtekið þetta fram og fært sönnur a. Hefði því verið skynsamlegra fyrir læknafél. að fá einhvern þm., t. d. hv. þm. G.-K., til þess að flytja brtt. við þetta eina atriði, en að senda slík allsherjar mótmæli gegn frv., sem hér eru fram komin.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta ágreiningsatriði, með því að ég veit, að hv. þdm. hafa fyrir löngu gert sér ljóst, að þörf er á að setja praktiserandi læknum gjaldskrá, engu síður en héraðslæknum. Ég vil aðeins mælast til þess, að rökst. dagskráin frá hv. þm. G.-K. verði felld sem rækilegast.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Borgf. get ég sagt það, að mér virðast þær allar vanhugsaðar og til skaða fyrir frv. Mér skilst, að brtt. við 4. gr. eigi að koma í veg fyrir það, að lækni, sem væri t. d. kosinn alþm., yrði gerð erfið eða ómöguleg þingseta fyrir meinbægni stjórnarvalda. Þetta kemur þó ekki vel fram í till., og hefði átt að orða hana svo skýrt, að enginn vafi gæti á þessu leikið. En annars er hættan á slíkri misbeitingu ekki mikil. Ég held, að engin dæmi séu slíks stjórnarofbeldis, síðan Jósep heit. Skaptasyni var meinuð þingseta fyrir mannsöldrum síðan. Og það er m. a. fyrir það, að stjskr. verndar nú rétt embættismanna að þessu leyti. Þeir þurfa ekki einu sinni leyfi stj. til þess að þiggja kosningu til Alp., en verða aðeins að sjá sér fyrir staðgöngumanni, sem stj. samþ. Og því verður ekki breytt með almennum lögum. Brtt. við almennt lagafrv., sem segir, að læknadeild háskólans eigi að ákveða um það, sem stjskr. segir, að stj. skuli ákveða um, er gersamlega þýðingarlaus. Ég vil því óska þess, að flm. sansist á að taka hana aftur.

2. brtt. er við 13. gr. Hv. þm. þolir ekki að nefnt sé stéttarfélag, en vill í þess stað setja orðið félagsskapur. En félagsskapur lækna getur verið mjög margvíslegur. Stéttarfélag er hins vegar ákveðið hugtak og merkir félagsskap, sem gætir atvinnulegra hagsmuna stéttarinnar. Þegar aðeins er talað um félagsskap lækna, er engin leið að vita, hvað við er átt. Þeir geta verið í esperantofélagi, spiritistafélagi, socialistafélagi og bindindisfélagi, svo ég taki nokkur dæmi: Það er þess vegna alls ekki nóg að taka til félagsskap lækna, það verður að vera stéttarfélag þeirra. Ég vil því mælast til þess, að hv. flm., taki einnig þessa till. sína aftur, af' því að hann meinar vafalaust það sama og ég, þó að orðalagið sé honum gersamlega að ástæðlausu þyrnir í augum.

Eins er um 3. brtt. Ég held, að hún sé ekki borin fram af öðru en fáfræði á máli því, sem hér ræðir um. Hv. þm. talar um það, að sér finnist hart, ef ekki má auglýsa í verzlunarskyni lækningakraft drykkja og matvæla. Hann var þó ásattur um að láta þetta gilda um lyf, en ég vil benda honum á það, að mjög erfitt er í þessu sambandi að draga takmörk á milli þess, hvað eru lyf, og hvað má teljast matur og drykkur.

Því miður hefi ég ekki hjá mér enskt tímarit, sem ég handlék rétt áður en ég kom hér á fundinn. Þar voru yfir 100 skrumauglýsingar um allskonar lyf, og önnur hver auglýsing var um slík lyf, sem jafnframt mátti kalla mat eða drykk. Eða hvað skal segja um öll þau lyf, sem unnin eru úr eggjum, mjólk, kjötseyði o. fl., sem selt er þúsundföldu verði við næringargildi, undir því yfirskini, að þau hafi í sér fólginn dularfullan lækningakraft. hér hefir það t. d. viðgengizt, að auglýst hafa verið þessi eða hin bætiefni í fæðuteg., sem sannazt hefir um, að alls ekki eru þar til. Það er því fullvist, að ef þessi brtt. yrði samþ., og leyft yrði að augljósa lækningakraft matar og drykkja, þá næði ákvæðið um bann gegn skrumauglýsingum um lyf ekki tilgangi sínum nema að litlu leyti, því að það er svo margt, sem með lagi er hægt að kalla matvæli.

Þá kem ég að síðustu brtt. þessa hv. þm., og er sú stærst og mikilvægust. Hann vill sem sé ekki láta ákvæði þessara laga ná yfir smáskammtalækna. Það er mesti misskilningur, ef hv. þm. heldur, að þessu frv. sé sérstaklega beint gegn smáskammtalæknum. En það á auðvitað að ná yfir smáskammtalæknana, m. a. þannig, að þeir þurfi að fá leyfi til þess að stunda atvinnu sína, eins og aðrir læknar. Ef brtt. hv. þm. verða samþ., ná engin ákvæði þessara laga til smáskammtalæknanna. Og skulum við nú athuga, hvað það hefir að þýða: Þeir þurfa ekki að hafa leyfi til lækninga og eru undanþegnir öllum skyldum um lærdóm. Þeir þurfa ekki að vera íslenzkir ríkisborgarar og mega hafa verið dæmdir til refsingar fyrir svívirðilegt athæfi. Þeir mega vera bæði líkamlega og andlega sjúkir, svo að hætta stafi af þeim við læknisstörf. Þeir mega vera drykkjumenn og eiturlyfjaneytendur, hafa kynni sig að alvarlegu hirðuleysi og ódugnaði og kalla sig sérfræðinga í hverju sem er. Þeir þurfa ekki að gegna starfi sínu með árvekni, halda þekkingu sinni við, eða fara nákvæmlega eftir henni. Þeir þurfa ekki að gæta neinnar samvizkusemi og mega baka sjúklingum ojtarfa kostnað með óhæfilegri lyfjanotkun og þýðingarlausum aðgerðum. Ekki þurfa þeir heldur að gæta hagmælsku um einkamal sjúklinga sinna. Þeir mega auglýsa sig og lækningar sínar með takmarkalausu skrumi, og þeir eiga ekki að hafa neina gjaldskrá til að fara eftir. Og loks mega þeir stunda hverskonar skottulækningar, — sem kemur sér vafalaust mjög vel fyrir þá — og taka smitandi sjúklinga til meðferðar án nokkurra takmarkana.

Þegar hv. flm. athugar allt þetta, vona ég, að hann sjái að sér og taki einnig þessa brtt. aftur. Það er augljóst mál, að svo mikil nauðsyn sem það er að setja fulllærðum læknum takmörk, er þó nauðsynin hálfu meiri, þegar um er að ræða menn, sem vilja gefa sig við lækningum án þess að hafa notið nokkurrar menntunar í þeirri grein. Samþykkt brtt. gerir raunar lögin gersamlega þýðingarlaus. Ef hún yrði samþ., gæti hvaða læknir sem er smokkað sér undan ákvæðum þeirra með því að kalla sig smáskammtalækni.

Ég vil mælast til þess, að hv. d. felli allar þessar brtt., ef þær móti von minni verða látnar koma til atkv., og síðan fái frv. samþykki. Ég tel illa farið, ef það nær ekki fram að ganga á þessu þingi. Það er alveg satt, sem hv. flm. rökst. dagskrárinnar sagði, að mikil ástæða væri til þess að taka alla heilbrigðislöggjöfina til endurskoðunar, og það mun verða gert smátt og smátt. En þar mun nóg til þess að endurskoða, þó að eitthvað sé afgreitt. Og ég tel vel farið, ef aldrei hefir verið eða verður samþ. frv., sem verr er undirbúið en þetta.