19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

35. mál, lækningaleyfi

Ólafur Thors:

Ég þarf ekki að tala langt mál til þess að svara hv. flm., en vil þó gera nokkrar aths. Hv. flm. sagði, að ef ætti að undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni fyrir næsta þing, yrði hún sennilega miklu verr undirbúin en þetta frv. Mér er nú ekki vel ljóst, hversu slíkt má verða. Ég verð að vísu að játa það, að ég hefi enga sérmenntun á þessu sviði og verð því að vitna í umsagnir mér lærðari manna, eins og t. d. læknanna í Læknafél. Rvíkur. Í erindi þeirra segir, að þeir óski eftir því, að frv. þetta verði ekki samþ. nú, og rökin, sem þeir færa fyrir því, er ónógur undirbúningur. Ég vil leyfa mér að lesa dálitið úr erindi læknafél., til þess að skýra málið fyrir hv. dm. Þar segir.

— — „Þeir lagabálkar, sem hér liggja fyrir, fullnægja ekki að vorum dómi heim kröfum, sem áður voru nefndar. Þeir safna aðeins saman í eina heild nokkrum sundurlausum lögum, án þess að laga ýmsa þá vankanta, sem nú eru á löggjöfinni, eða flytja nokkur þau nýmæli, er bæti úr svo brýnni þörf, að nokkru máli skipti, hvort þau verði að lögum á þessu þingi“.

Þannig líta þessir sérfræðingar á málið. Sem rökrétta afleiðingu af því leggja þeir til, að lögfesting þessa frv. verði frestað um eitt ár, og að fyrir næsta Alþ. verði lagt frv. til heildarlaga um þessi efni. Og það er engin ástæða til þess að væna þá menn, sem vilja fresta þessu máli vegna ónógs undirbúnings nú, um að þeir fari að leggja til, að heildarlög um heilbrigðismál verði sett á án nægs undirbúnings. Enda verður þetta enn ólíklegra, ef við athugum, hvaða menn það eru, sem hafa sent þessa áskorun. Það eru t. d. Guðm. Hannesson, Guðm. Thoroddsen, Matth. Einarsson, Gunnl. Claessen, Halldór Hansen og Jón Hjaltalín Sigurðsson. Ég trúi því ekki, ef það væri rétt hjá hv. flm., að ágreiningur út af þessu máli sé aðeins sá, hvort eigi að setja praktiserandi læknum taxta, að þessir menn legðu slíkt kapp á það að láta frv. ekki ganga fram nú. Ég verð að biðja hv. dm. að athuga, hvor aðili ætti að vera óhlutdrægari. Annarsvegar eru margir læknar, sem eftir rólega athugun taka ákvörðun gegn því, að frv. nái nú fram að ganga, en hinsvegar er flm. frv., sem búinn var að flytja þetta frv. áður en hann fékk þessa umsögn, en hefir svo þótt vansi að því að taka frv. aftur. En ég sé ekki, að það sé nokkur vansi að játa, að hann hafi ekki haft nægan tíma til undirbúnings þessu frv. Ég vona því, að hv. þdm. sjái sér fært að verða við bón Læknafél. Rvíkur og fresti þessu máli um eitt ár, enda sýnilegt, að það getur engan skaða af því beðið.