19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

35. mál, lækningaleyfi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. G.-K. varð að kannast við, að hann hefði hlaupið á sig, og það verður hann venjulega að gera, þegar hann tekur til máls.

Hv. þm. sagði í miðræðu sinni ekki einungis, að þessir læknar hefðu verið staddir á fundinum, heldur sagði hann, að þeir hefðu mótmælt frv. og las síðan upp nöfnin. Svo kemur einn þessara lækna hingað af tilviljun, og hann er spurður, hvort hann hafi tekið þátt í þessum mótmælum, og hann segist ekki einu sinni hafa verið þar við atkvgr. Þar af leiðir það, að hv. þm. hefir sagt ósatt, og þar með sest, hvað lítið er að marka það, sem hann segir, þótt ekki væri um það önnur vitneskja. Hann hefir verið sendur af praktiserandi læknum til að gefa villandi skýrslu, sem honum hefir nú mistekizt.

Eitt var það, sem hv. þm. þótti verst í frv., eftir því sem hann sagði, og það var það, að eftir að ákvæði þess eru komin í gildi, verður talsvert erfiðara fyrir hann að senda lækna sem flugumenn heim til fólks, og býst ég við, að öllum finnist afsakanlegt, þótt honum þyki það verra. En ég get sagt honum, að vinur hans, Eggert Claessen, sagði einmitt í rætt fyrir hæstarétti nýlega, þegar málafærslumaður las þessa gr. úr frv., að hann skildi það vel, að þarna væri ákvæði, sem læknastéttinni kæmi óþægilega.