22.04.1932
Efri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

35. mál, lækningaleyfi

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég vildi leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. þetta áður en það fer til n., því ég býst við, að það eigi að ná fram að ganga á þessu þingi, þó að undirbúningur þess sé vafalaust minni en undirbúningur slíkra mála í nágrannalöndunum, t. d. í Danmörku. Það, sem ég vildi fyrst og fremst biðja n. þá, sem málið fær til meðferðar, að athuga, eru ákvæði 10. og 11. gr. frv., þar sem talað er um vottorðagjafir og vitni í réttarmálum, m. ö. o. þagnar- og frásagnarskyldu lækna. Ég vildi mælast til þess, að n. tæki til athugunar, hvort læknum beri ekki einnig einhver réttindi í sambandi við þær skyldur, því það hefir komið fyrir, að það valdi heim þungum búsifjum, ef þeir inna af hendi þessar skyldur sínar.

Þá er 13. gr. frv. Hún fjallar um gjaldskrár lækna. Ég vildi beinlínis biðja n. að athuga, hvort hún sé í samræmi við 65. gr. stjskr. Ennfremur segir svo í 5. málsl. þessarar gr. frv.: „Nú hefir læknir, annar en héraðslæknir, eða tannlæknir eða nuddari eða aðrir með takmörkuðu lækningaleyfi opinbert starf á hendi fyrir ríkið eða bæjar- eða sveitarfélag og föst laun fyrir það, ekki lægri en meðalhéraðslæknislaun, og ber honum þá að fara eftir gjaldskrá héraðslækna“. Mér finnst málsgr. þessi mjög óljós, t. d. gagnvart sérfræðingum, sem hafa opinber störf á hendi, eins og t. d. læknaprófessorunum, sem jafnframt háskólakennslunni eru yfirlæknar við landsspítalann og vitanlega eru sérfræðingar hver í sinni grein. hér kemur það alls ekki skýrt fram, hvort þeir skuli taka fyrir störf sín sem sérfræðingar eða eftir gjaldskrá héraðslækna.

Þá er það 14. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að landlæknir megi heimta skýrslur af læknum viðvíkjandi störfum þeirra og heilbrigðismálum, og er ætlazt til, að með reglugerð megi ákveða dagsektir, allt að 5 kr. fyrir hvern dag, er vanrækt er að senda fyrirskipaðar skýrslur. Finnst mér þetta að vísu ekki athugunarvert í sjálfu sér, en þar sem læknar hafa flestir hverjir mörgu að sinna, einkum þó um öll mánaðamót og áramót, þætti mér réttara, að þeim væri synd einhver linkind í þessu efni, ekki sízt þar sem ekki er ætlazt til þess, að þeir fái neitt fyrir þessar skýrslugjafir sínar.

Samkv. 4. lið 15. gr., sem fjallar um skottulækningar, má hegna læknum fyrir ýmiskonar afbrot, sem þar eru talin, svo sem ef læknir ávísar eða selur mönnum lyf í þýðingarlausu óhófi eða framkvæmir læknisaðgerð að ástæðulausu, sjálfum sér til ávinnings. Óttast ég, að þessi ákvæði megi misbrúka, ef óhlutvöndum mönnum er í nöp við lækninn, og þar sem 6. gr. hinsvegar kveður svo á, að læknar megi ekki baka sjúklingum sínum eða aðstandendum þeirra óþarfan kostnað, svo sem með óhóflegri lyfjanotkun, óþörfum vitjunum eða aðgerðum o. s. frv., finnst mér sem þessi ákvæð 15. gr., sem ég drap á, séu með öllu óþörf.

Þá er það loks 18. gr., sem hefir að geyma ýms refsingarákvæði fyrir brot, sem læknar kunna að verða sekir um samkv. frv. Þykir mér það á skorta um þessi ákvæði, að ekki skuli kveðið á um það jafnframt, hvað séu minni háttar brot og hvað þyngri brot, heldur er þetta algerlega lagt á vald dómarans í hverju tilfelli. Finnst mér réttara, að Alþ. skiljist ekki svo við þetta frv., að ekki sé nánar tiltekið um það, hvaða gr. frv. falla undir minni háttar brot og hvaða gr. þess undir hæstu sektir, ef brotið er gegn ákvæðum þeirra. Verð ég að mælast til þess við þá n., sem málið fær til meðferðar, að hún athugi þetta allt rækilega og færi frv. til betra horfs, sérstaklega þó um þau atriði, sem ég nú hefi drepið á. Ég neita því ekki, að frv. er á ýmsan hátt til mikilla bóta um lækningalöggjöfina og að full þörf er á að fá lögfest margt af því, sem í frv. stendur, en hinsvegar orka ófá ákvæði frv. mjög svo tvímælis, hvort til bóta séu, eins og ég hefi bent á, og auk þess mætti vafalaust bæta ýmsum þörfum ákvæðum inn í frv. Frv. hefir að vísu verið sent til umsagnar stj. Læknafél. Ísl., sem hefir gert sínar aths. við það, og hafa þær margar hverjar verið teknar til greina við samning frv., eins og segir í grg. þess, en hinsvegar hafa nú komið fram tilmæli frá Læknafél. Rvíkur um að breyta frv. að meira og minna leyti, og helzt fresta samþykkt þess til næsta þings, svo fél. gæfist kostur á að athuga frv. ýtarlega. Við umr. í Nd. var þessari málaleitun svarað svo, að í Læknafél. Ísl. væru allir hinir sömu menn sem eru í Læknafél. Rvíkur, og væri því óþarfi að vísa frv. til umsagnar þess fél. sérstaklega, en þessu er til að svara, að mörg ákvæði frv. snerta praktiserandi lækna sérstaklega, en þeir eru allir að kalla í Læknafél. Rvíkur, og það er því skipað tiltölulega fleiri praktiserandi læknum en Læknafél. Ísl., og virðist því sjálfsagt, að fél. fái tækifæri til að láta uppi álit sitt um frv., og ég vænti því þess, að sú n., sem málið fær til meðferðar, afgreiði það ekki svo, að stj. Læknafél. Rvíkur verði ekki til kvödd til skrafs og raðagerða um málið.