09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

35. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Jón Jónsson):

Eins og ég atti von á, ræddi hv. samnm. minn ekki um annað en 13. gr. frv., um það, hvort ástæða væri til að setja praktiserandi læknum gjaldskrá. Ég viðurkenni líka, að það er mál, sem vert er að athuga. Eins og nú standa sakir, eru undir 50 héraðslæknar í landinu, og ég hefi ekki heyrt koma fram veruleg andmæli gegn því, að rétt væri og eðlilegt að setja þeim gjaldskrá, enda hefir það verið gert áður. Héraðslæknum var sett gjaldskrá fyrir 20–30 árum; hún er að vísu orðin úrelt nú, en það er gert ráð fyrir, að hún verði endurskoðuð. Og vitanlega er hún sett til þess að tryggja almenning í landinu gegn því, að héraðslæknarnir ofselji sín verk. Nú verður að gera ráð fyrir því með því fyrirkomulagi, sem nú er, að töluverður hluti af þjóðinni hafi lítinn eða engan aðgang að héraðslæknum, heldur verði að leita til praktiserandi lækna. Svo er það t. d. hér í Rvík, að allur fjöldinn verður að skipta við praktiserandi lækna, því ekki þykir ástæða til að hafa hér svo marga héraðslækna sem þyrfti, ef bæjarbúar ættu eingöngu að nota þá. Meðan svo stendur, sé ég ekki annað en að það sé ástæða til þess að tryggja þá landsbúa, sem við praktiserandi lækna þurfa að eiga, fyrir því, að þeir ofselji ekki verk sín, eins og hinir eru tryggðir gagnvart héraðslæknunum. Auk þess virðist sjálfsagt, að því er viðvíkur viðskiptum þessara lækna við hið opinbera, að þar sé einhver ákveðinn taxti að binda sig við. Annars getur orðið ágreiningur um greiðslur til þeirra, og hafa dómstólarnir á litlu að byggja úrskurði í slíkum málum, ef enginn taxti er til að fara eftir.

Um það, hvort ríkið hefir rétt til þess að setja ákvæði eins og hér er um að ræða, virðist mér ekki ágreiningur milli mín og hv. 4. landsk. Honum virðist ljóst, að það fari ekki í bága við stjskr., og um það atriði er hann færari að dæma en ég.

Enda liggur það í augum uppi, að um leið og ríkið veitir einhver réttindi, þá hefir það heimild til þess að setja skilyrði fyrir þeirri réttindaveitingu.

Um hitt, sem haldið hefir verið fram, að engin þörf væri á að setja læknum gjaldskrá, vegna þess að þeir misnoti ekkert aðstöðu sína, skal ég ekkert segja um. Það orkar vitanlega tvímælis, hvort þeir selja ekki ýms verk sín of dýrt. En ef svo er ekki, ef þeir selja aldrei dýrara en sanngjarnt er það, sem þeir gera, þá býst ég ekki við, að þeir hafi neitt undan því að kvarta, þó gjaldskrá væri sett, því maður verður að ganga út frá, að hún yrði miðuð við það, sem sanngjarnt er og hæfilegt, að læknar fái fyrir störf sín. Hér er nú ekki farið harkalegar að en það, að gert er ráð fyrir því, að byrjað sé á að leita samkomulags við stéttarfélög læknanna um þetta, og það er fyrst ef ekki tekst að ná samkomulagi, að heilbrigðisstj. má nota aðstöðu sína til þess að fyrirskipa gjaldskrá. Það virðist því vera gætt allrar sanngirni í þessu efni. Mér finnst ekkert ósamræmi í því, að um leið og læknum er veitt leyfi til að stunda lækningar og öllum öðrum fyrirmunað að koma þar nálægt, til þess að tryggja sem bezt atvinnu þeirra, eins og gert er í III. kafla frv., þá séu heim sett einhver skilyrði fyrir því. Mér finnst læknisstarfið ekki sambærilegt við önnur störf í þjóðfél. Það er svo mikilsvert, bæði fyrir læknana að mega stunda það, þar sem það gefur venjulega talsvert mikið í aðra hönd, og eins fyrir almenning, að þarna sé að einhverju föstu að ganga. Það er dálítið annað prútta um borgun fyrir læknisverk heldur en um kaupgjald við algenga iðn. Þess vegna legg ég mikla áherzlu á ákvæði 13. gr. og tel mikla nauðsyn á því fyrir almenning í landinu, að þau verði samþ.