09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

35. mál, lækningaleyfi

Bjarni Snæbjörnsson:

Eins og ég gat um við 1. umr., blandast mér ekki hugur um, að ýmislegt í þessu frv. er gott og þarflegt. Hinsvegar sé ekki neitt í frv., sem er svo aðkallandi, að verði að lögum, að fyrir þá sök beri að leggja eins mikið kapp á að gera frv. að lögum á þessu þingi eins og virðist vera gert. Eins og ég tók fram áður, er á ferðinni samskonar lagasmiði í Danmörku, og þar hafa menn gefið sér meiri tíma til þess að athuga hana. Þar er búið að vinna að slíku frv. sem þessu í 3 eða 4 ár, og mér vitanlega er það ekki orðið að lögum ennþá.

Nú lítur út fyrir, að hér eigi að afgreiða þetta mál þegar. Ég hefi heyrt ávæning af því frá hæstv. stj., að frv. ætti að verða að lögum á þessu þingi, og það, sem fram hefir komið í hv. Nd., bendir einnig til þess; ég hefi því álitið þýðingarlaust að bera neitt fram því til hindrunar, að málið verði afgr. á þessu þingi.

Ég ætla þá að víkja ofurlítið að greinum frv., sérstaklega 13. gr., sem hér hefir verið lítillega til umr.

Það er alveg rétt hjá hv. 4. landsk., að það er mjög óviðurkvæmilegt að taka þannig eina stétt manna út úr og setja henni gjaldskrá. Ég fyrir mitt leyti get ekki skoðað það á annan hátt en þann, að þessi stétt sé talin svo hóflaus í kröfum um borgun fyrir verk sín, að það opinbera verði að taka í taumana. Enda kom það greinilega fram hjá hv. 3. landsk., þar sem hann sagði hreint og beint, að tilgangurinn með þessu löggjafarákvæði væri sá að tryggja landsmenn gagnvart læknunum, og þá vitanlega vegna þess, að þeir hafi verið of háir í kröfum sínum. En ég hefi ekki ennþá orðið þess var, hvorki utan þings né innan, að sú skoðun væri almennt ríkjandi, að læknar yfirleitt tækju of mikið fyrir verk sín. Eins og líka áður hefir verið tekið fram, er ekki allt fengið fyrir læknana, þó þeir hafi liðsinnt sjúklingnum, sett upp fyrir það ákveðið gjald og sent reikningana; peningarnir eru ekki komnir í kassann fyrir það. Enda verður það oftast svo, að um leið og læknir vinnur verk sitt, er hann ekki beinlínis að hugsa um, hvað hann muni fá fyrir það, heldur hugsar hann fyrst og fremst um, hvort það getur komið að notum fyrir sjúklinginn sjálfan. Borgunin kemur svo til greina á eftir, og hana sníður læknirinn alltaf eftir kjörum sjúklingsins. Ef sjúklingurinn er svo efnum búinn, að hann getur ekki borgað fyrir læknishjálpina, er honum gefið það eftir að meira eða minna leyti. Þess skal líka getið, að læknarnir setja aldrei upp fyrir verk sín af handahófi, heldur fara þeir eftir gjaldskrá síns stéttarfélags, alveg eins og t. d. múrarar og trésmiðir, og er engum félagsmanni heimilt að taka meira fyrir starf sitt en þar er ákveðið.

Ef hv. 3. landsk. heldur því fram, að ástæða sé til þess að tryggja landsbúa gegn praktiserandi læknum eða kröfum þeirra, þá finnst mér hann ætti að finna þeim orðum sínum einhvern stað. Annað mál er það, að ég myndi ekki hafa neitt við það athuga, þótt gjaldskrá væri sett fyrir læknisverk, unnin fyrir það opinbera. Gjaldskrá héraðslækna, sem sett var árið 1908 og hv. 3. landsk. gat um, er orðin svo úrelt, að enginn læknir, hvorki héraðslæknir né praktiserandi, fer eftir henni nema í sumum tilfellum, þegar hið opinbera á í hlut, og enginn hefir neitt við það að athuga. Mér finnst líka eðlilegt, að hið opinbera geri samning við læknana, líkt og sjúkrasamlög gera, um að öll læknisverk, sem unnin eru í þess þágu, skuli borguð eftir ákveðinni gjaldskrá, en að öðru leyti væri bæði héraðslæknum og öðrum læknum heimilt að fara eftir þeirri gjaldskrá, sem Læknafél. Ísl. hefir sett. En sé þá svo, að hv. þm. treysti ekki Læknafél. Ísl. til þess að semja gjaldskrá, án þess að sjúkl. séu féflettir af læknum, þá vil ég gjarnan, að það komi skýrt fram í umr.

Hv. 3. landsk. talaði um, að það væri ekki óeðlilegt, þó læknum væri sett ákveðin gjaldskrá, því þeir hefðu þau sérréttindi, að öllum öðrum væri bannað að fást við lækningar og væri þetta ákvæði til þess að tryggja atvinnu læknastéttarinnar. Ég hélt nú satt að segja, að þau ákvæði væru ekki komin inn í frv. til þess að vernda atvinnu læknanna, heldur vegna sjúklinganna sjálfra. (JónJ: Hvorttveggja). Ég er viss um, að fyrir hv. flm. frv., þm. Ísaf., hefir vakað það að tryggja sjúklingana fyrir því að lenda í höndum þeirra manna, sem ekki bera skyn á sjúkdóma þeirra. Mér virðist það því í mesta máta ósanngjarnt, og ég get ekki skoðað það öðruvísi en sem árás á læknastéttina, ef það er álit Alþ., að hún sé sú eina stétt hér á landi, sem ástæða sé til að taka út úr og setja lögbundna gjaldskrá, en að allar aðrar stéttir megi taka fyrir störf sín eftir gjaldskrám, sem þeirra stéttarfélög ákveða.

Í Danmörku er taxti læknanna yfirleitt hærri en hér á landi, t. d. kosta þar einföld vottorð, eins og t. d. sjónarvottorð þeirra manna, sem aka vilja bifreið, 10 kr., en hér býst ég ekki við, að neinn þurfi að greiða meira en 4–5 kr. fyrir samskonar vottorð. Dönum fannst samt ekki ástæða til þess að setja fastan taxta á praktiserandi lækna, en það var ákveðið, að læknar mættu ekki taka meiri borgun en sanngjarnt var eftir því, hve verkið var vandasamt, og eftir því, hvernig fjárhagsástæðum sjúklingsins var háttað. Þannig skipuðu Danir þessum málum. Þar var ekki verið að setja neinn slíkan taxta á lækna og hér á að gera.

Ég verð að segja, að ég skil ekki, hvað ætlazt er til með því, sem stendur í 13. gr., að taka eigi tillit til launa héraðslækna og praksís praktiserandi lækna, er semja eigi gjaldskrá fyrir praktiserandi lækna. Þetta verður sennilega mjög erfiður útreikningur, og tilviljun ein, hvort hann verður réttur eða ekki. Ég segi fyrir mig, að ég mun greiða atkv. á móti þessari 13. gr., og fáist hún ekki felld, mun ég við 3, umr. bera fram brtt.um þetta atriði, í þá átt, sem ég áður hefi talað.

Ég vil einnig vekja athygli á öðru atriði, sem ég minnast á við 1. umr. þessa frv. það er 4. liður 15. gr. Það, sem þar er sagt, stendur í 6. gr. frv., en hægt að misbrúka þessa málsgr. ef einhver óhlutvandur maður vildi gera viðkomandi lækni tjón, og mun ég því leggja til, að þessi málsgr. verði felld úr frv. Ég tel víst, að frv. eigi að fara í gegn á þessu þingi, og verður það því bara tímaeyðsla að taka fyrir hverja gr. þess út af fyrir sig. En ég álít, að 13. gr. geti ekki staðið óbreytt, og tel ekki vansalaust af þinginu að taka þá afstöðu til læknastéttarinnar, að hún sé eina stétt landsins, sent þurfi að setja gjaldskrá, af því að að hún krefjist of mikils fyrir verk sín samanborið við aðrar stéttir hérlendis.