09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

35. mál, lækningaleyfi

Halldór Steinsson:

Ég þarf ekki að vera margorður um þetta frv., þar sem ég álít, að sem heild sé það til bóta. Það eru tekin ýms ákvæði eldri laga, sem þurfti að sameina. Nýmælin eru líka flest til bóta. En ég ætla að fara nokkrum orðum um 13. gr.

Það má segja, að ég hafi nokkra sérstöðu í þessu taxtamáli, þar sem ég lít svo á, að ekki eigi að setja héraðslæknum, hvað þá praktiserandi læknum taxta, nema um störf, sem eru unnin fyrir hið opinbera. Héraðslæknar fá laun úr ríkissjóði, en eru háðir þeim skyldum að sitja á ákveðnum stöðum og gegna alltaf, þegar á þá er kallað, og gefa hverskonar skýrslur um störf sín, heilbrigðisástand o. fl. Fyrir þetta fá þeir sín föstu laun. Enda er það ærið ófrjálst að þurfa að sitja í afskekktu útkjálkahéraði, ef borið er saman við praktiserandi lækna, sem lifa góðu lifi í stóru bæjunum, til þess að þeir hefðu þessi föstu laun fram yfir þá praktiserandi.

Það er ekki hægt að réttlæta slíkt, að setja svona taxta fyrir eina stétt þjóðfélagsins, en allar aðrar skuli vera því undanþegnar. Hv. frsm. hefir ekki heldur reynt að réttlæta þetta. Hvaða önnur stétt sem er getur skapað sér kaup með samtökum sínum. Verkamenn ákveða sín kaup með samtökum, og slíkt er flestum stéttum fært, nema læknum. Læknar geta að vísu haft með sér samtök. En þeir geta ekki gert verkfall, þó ekki væri frá öðru sjónarmiði en því siðferðilega, og eru þannig að þessu leyti verr settir en nokkur önnur stétt í þjóðfél. Það er því sérstaklega harkaleg aðferð að ætla einmitt að sníða þessari stétt þrengstan stakk um allar launagreiðslur.

Hv. 3. landsk. sagði, að það gæti komið fyrir, að læknar misnotuðu vald sitt til þess að ákveða kaup sitt. Það er rétt, enda mættu þeir þá vera heilagri en aðrar stéttir, ef slíkt gæti ekki skeð. En þó að slíkt gæti komið fyrir, má það skoðast sem undantekning og ekki nauðsynlegt fyrir því, að ákvæði þessa frv. um taxta verði samþ. En eins og ég sagði í byrjun, er ég hlynntur þessu frv. sem heild, og mun greiða atkv. með því yfirleitt.