09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

35. mál, lækningaleyfi

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er nú talsvert nýmæli, sem felst í 13. gr. þessa frv., að því leyti, sem hún heimilar ríkisvaldinu að setja gjaldskrá fyrir eina tiltekna stétt manna, sem ekki nýtur neinna hlunninda af hálfu hins opinbera, en fær aðeins formlegt leyfi stjórnarvalda til að reka atvinnu, og gera verður ráð fyrir, að öllum verði veitt, sem uppfylla þau skilyrði, sem til þess þarf að fá slíkt leyfi. Þetta er algert nýmæli, og má ekki blanda því saman við hann rétt, sem það opinbera hefir til að setja sínum embættismönnum gjaldskrá, því hann er allt annars eðlis.

Það er aðalreglan, að starfsmenn þess opinbera láti í té vinnu sína fyrir fastákveðin laun fyrir þá vinnu, sem ríkið þannig geldur fyrir. Frá þessu eru þó gerðar undantekningar um einstaka flokka starfsmanna, sem hinu opinbera hefir þótt hentugra að skammta launin ekki svo hátt, að það sæi sér fært að heimta alla þeirra vinnu ókeypis fyrir þau laun, en þá er það jafnframt regla, að því opinbera ber að setja þeim mönnum taxta, sem ekki fá fulla borgun frá því opinbera fyrir verkin, sem þeim er ætlað að vinna. Það er t. d. ekki ætlazt til þess, að héraðslæknar, sem ríkið greiðir laun, taki fulla borgun fyrir störf sín af þeim mönnum, sem þeir vinna fyrir; þess vegna er svo ákveðið, að ríkisvaldið setji þeim taxta um það, hvað þeir mega taka.

En að því er snertir taxta fyrir tiltekna stétt manna, er ekki nýtur neinna launa frá því opinbera, er það algert nýmæli. Það hefir verið reynt að bera það saman við lyfjataxta fyrir lyfsala, en hann er allt annars eðlis, því lyfsalarétturinn er raunverulega monopol eða einkaréttur þeirra fáu manna, sem hann hafa öðlazt; það nægir enganveginn fyrir mann að hafa tekið lyfsalapróf og bera svo fram ósk um að mega selja lyf o. s. frv., til þess að hann svo megi fara um landið eða hafa fasta verzlun og selja lyf. Lyfsalataxtinn byggist á því, að fáum mönnum eru veitt forréttindi til þess sérstaklega að selja lyf. En það er ekki ætlazt til, að út í þetta verði farið að því er snertir embættislausa lækna. Það er ekki ætlazt til að takmarka tölu þeirra manna, sem lækningaleyfi geta fengið. Og því er ekki hægt að bera taxta fyrir þá saman við lyfsalataxtann.

En það getur vel komið til mála að leiða þjóðfél. út á þá braut, að það opinbera láti stjórnarvöldin setja taxta um vinnu manna yfirleitt. En hitt nær engri átt, að staðnæmast við vinnu þessarar stéttar, heldur verðu að útfæra þetta víðar, því það er af ýmsum ástæðum erfiðara að láta þetta ná til læknastéttarinnar en margra annara stétta, sem eins og læknarnir, að því leyti, sem um embættislausa lækna er að ræða, þurfa að fá vinnu sína fullborgaða.

Það er ekki alger tilviljun, að starfsemi læknanna er oft kennd við list og kölluð læknislist, af því að starfið á að því leyti skylt við list, að það er svo ógnar mismunandi, sem látið er í té, og sá mismunur kemur að innan, af því að eðli og hæfileikar þeirra, sem starfið stunda, eru svo mismunandi. Hvernig ætlar t. d. hv. allshn. þessarar hv. d. að ákveða taxta fyrir listmálara? Ætlar hún að setja ákveðið verð á fermetrann af málverkinu? Hvernig ætlar hún að setja taxta á tónsmíðar? Ætlar hún að setja visst verð á hverja nótnalínu ? Nei, það eru til þau svið, sem það verður ákaflega erfitt að setja taxta á, þó gengið verði inn á það svið, að það opinbera setji taxta á vinnu manna almennt. Það er erfitt að setja taxta á t. d. verk þeirra lækna, sem skara fram úr. Og það væri mjög rangt, að þjóðfél. settist í veg fyrir, að slíkir menn gætu þrifizt, sem eru langt fyrir ofan meðallag, með því að binda þá við að taka sömu borgun fyrir vinnu sína og miðlungsmenn geta tekið.

Það hefir verið rætt hér um það áður að ákveða borgun fyrir störf manna, en sætti mikilli mótspyrnu af hálfu verkamanna, sem þar áttu hlut að máli, og var þó ekki gert ráð fyrir, að sú ákvörðun yrði beinlínis stjórnarráðstöfun, heldur að borgunin yrði ákveðin að opinberri tilhlutun með dómi, að undangenginni rannsókn. Og þó var ekki farið lengra í þeim till. en að leggja til, að slík ráðstöfun væri þá aðeins gerð, að ágreiningur væri um verðlagið milli vinnukaupanda og vinnuseljanda. En ég held áreiðanlega, að ákvæði 13. gr. þessa frv. séu fyrstu till., sem koma fram um það, að það opinbera setji verðlag á vinnu manna, án þess að ágreiningur sé um verðlagið milli vinnuseljanda og vinnuþiggjanda. Og ég er ófáanlegur til að stíga þetta spor um ákvörðun kaupgjalds að opinberri tilhlutun, svo langt, a. m. k. í fyrstu, að ákvæðið nái til þess, þegar fullt samkomulag er milli greiðanda og þiggjanda um launin. En ég get vel hugsað mér hitt, að á þessu sviði verði sett svipuð tilhögun og sú, sem farið var fram á í frv. um vinnudóminn í kaupgjaldsdeilum, að það verði gerð einhver sú ráðstöfun, að það fáist sanngjarnlega úr því skorið, ef ágreiningur rís milli sjúklings og læknis um greiðslu fyrir læknisverk, því ég viðurkenni, að það geti komið fyrir, að læknir setji upp þá borgun fyrir störf sín, sem álitast verður, að ekki sé sanngjarnleg. Ég álít því, að það sé hentugt fyrir þjóðfél. að hafa einhverja handhæga tilhögun á því, að hægt sé að fá sanngjarnlega skorið úr slíkum ágreiningi. Þetta langt er ég fús til að ganga. Og ef byrjað væri á þessu með læknastéttina, þá mundu fljótt fleiri stéttir og starfsgreinir verða dregnar inn í það. En þegar litið er á 13. gr. þessa frv., eins og hún liggur fyrir með brtt., þá verð ég að líta svo á, að hún haldi þessu ekki innan þeirra takmarka, sem eðlileg virðast, sem sé þeirra, að gera ráð fyrir, að ákvörðun ráðh. um borgun fyrir læknisverk gildi aðeins, ef ágreiningur verður milli læknis og sjúklings. Meðan hún fer lengra en þetta, sé ég mér ekki fært að greiða henni atkv.