09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

35. mál, lækningaleyfi

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég var nú ekki að gefa neina yfirlýsingu um álit mitt viðvíkjandi kaupi verkamanna, heldur var ég að benda á, út á hvaða braut hv. þm. Ísaf. og hv. 2. landsk. eru að fara með því að samþ. 13. gr. frv., hvaða afstöðu þeir eru með því að taka til sinna kjósenda. Hér er með forgöngu hv. þm. Ísaf. lagt út á þá braut, að löggjafarvaldið taki sér vald til þess að hafa áhrif á kauptaxta þeirra stétta í landinu, sem taka gjald hjá öðrum fyrir vinnu sína, og er þá eðlilegt, að verkamenn komi þar ekki sízt til greina. Annars hlýtur þessi lögákveðna gjaldskrá lækna að hafa þær afleiðingar, að læknar verða að ganga harðara eftir greiðslu hjá fátæklingunum heldur en þeir hafa hingað til gert, vegna þess að gjaldskráin kemur í veg fyrir það, að læknar geti tekið hærri greiðslu hjá þeim, sem betur megna að borga. Ég vil aðeins benda þessum hv. alþýðufulltrúum á, að hverju þeir eru að stuðla með samþykki sínu á 13. gr. frumvarpsins.