09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

35. mál, lækningaleyfi

Jón Baldvinsson:

Það var misskilningur hjá hv. þm. Hafnf., að ég ætti erfitt með að standa upp til fylgis við 13. gr. Einmitt þau dæmi, sem hann tók, sanna þetta bezt. Hann var að tala um, að mér þætti eðlilegt, að byggingameistararnir skyldu semja við húseigendurna og stýrimennirnir við gufuskipafélögin, og á sama hátt væri það eðlilegt, að læknarnir semdu við sjúklingana, en hér er ólíku saman að jafna. Hér er ekki um það að tala að semja, því sjúklingarnir standa alveg varnarlausir, ef læknarnir vilja nota sér sína aðstöðu. Taxti gæti töluvert hjálpað í slíkum tilfellum, og það er sjálfsagt að tryggja sjúklingana fyrir óforsvaranlegum kröfum frá hendi lækna með því að setja taxta. Eins og nú er ástatt, er enginn dómstóll til, er dæmi um þeirra ágreining, það eina, sem sjúklingur hefir sér til varnar í því efni, er, ef hann veikist aftur, og forðast þá að leita til sama læknis.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um, að gjaldskrá gerði það að verkum, að læknar yrðu að sleppa ríkum mönnum við hærri gjöld, en yrðu aftur að heimta meira af fátæklingum. Ég geri ráð fyrir því, að það verði tekið fram í gjaldskránni, að ríkir menn megi borga meira, ef þeir vilja. Annars álít ég bezta fyrirkomulagið, að allir læknar væru á föstum launum og almenningur fengi alla læknishjálp gefins, eða þá að komið væri upp svo öflugum sjúkrasamlögum, að þau tryggi almenningi alla læknishjálp. Þetta er stefna Alþýðuflokksins í heilbrigðismálum, og ég vænti nú, að hv. þm. Hafnf. og hv. 1. þm. Reykv. styðji þá stefnu og tryggi með því læknana í sínum störfum, svo þeir fái sínar réttmætu tekjur, og þurfi ekkert að gefa eftir af þeim. Í þessum efnum eru læknarnir alveg ósambærilegir öðrum stéttum.

Ég vil svo aðeins að endingu út af samanburðinum á læknisverkum og listaverkum lesa hér upp lítinn seðil, sem mér er sendur frá einum sjúklingi, sem staddur var á áheyrendapöllunum. Seðillinn er á þessa leið: „Aðalmunurinn á því, að hátt verð sé á listaverkum og læknisverkum er: „Listaverkin er hægt að neita sér um að kaupa, ef þau eru of dýr, en læknisverkin verða að kaupast, þegar líf og heilsa er annars í veði“.