11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

35. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Jón Jónsson):

Það er út af brtt. á þskj. 684, sem hv. þm. Hafnf. hefir talað fyrir, sem ég vildi segja fáein orð.

Fyrri brtt. er í tveimur stafl. a-liðurinn er um að fella niður 4. málsgr. 13. gr. frv., sem var aðalágreiningsefnið hér við síðustu umr. Þessi málsl., sem þeir vilja fella burt, er um það, að semja megi við sérfræðinga um allt að þriðjungi hærri borgun fyrir störf, er tilheyra sérgrein þeirra. Það er því á till. að sjá, að þeir vilji ekki setja hámark á aðgerðir þessara lækna. En ég get ekki fellt mig við það. Mér finnst rétt að setja hámarksverð á störf sérfræðinga sem annara lækna. Það er sanngjarnt, að þeir fái hærri greiðslu fyrir sínar aðgerðir en aðrir læknar. Og mér finnst þriðjungi hærri greiðsla fyrir þær ekki óríflega tiltekin, og að sérfræðingarnir megi vel við það una. Ég sé ekki heldur, að þessi málsgr. sé í neinu ósamræmi við næstu málsgr. á eftir, því þar er eingöngu talað um þá lækna, sem hafa föst laun, sem ekki eru lægri en meðalhéraðslæknislaun.

Þá er b-liður till. Er hann um það, að ákvæði síðara liðs 13. gr. eigi aðeins við um ágreining, sem verður milli embættislausra lækna og opinberra stofnana, svo sem ríkis-, sýslu-, bæjar- eða hreppsfélags. M. ö. o. að slíkur læknir megi selja almenningi svo dýrt, sem hann vill, verk sín. Þetta get ég ekki talið sanngjarnt, sérstaklega þó á þeim stöðum, sent allur almenningur getur ekki náð í aðra lækna en þá, sem hér um ræðir. Ég tel því rétt, að þetta ákvæði haldist, svo almenningur verði ekki fyrir harðari kostum en ástæða er til. Hitt þýðir ekki neitt að tala um, að borgun geti verið samningsmál milli læknis og sjúklings. Þegar veikindi ber að höndum og leita þarf læknis, oft skyndilega, þá er ekki byrjað á því að þjarka við lækninn um greiðslu fyrir starf hans. Mér finnst því sjálfsagt að setja taxta, sem fyrirbyggir það, að læknar þröngvi kosti almennings með ósanngjörnum launakröfum, og fyrirbyggja þar með allt þras um þetta efni.

Um síðari brtt. á sama þskj. skiptir ekki miklu máli. Sú brtt. er við 15. gr., en í þeirri gr. eru taldar upp hverskonar skottulækningar. Brtt. er um að fella niður 4. lið gr., en í þeim lið er það skilgreint undir skottulækningar, ef læknir eða sá, sem lækningaleyfi hefir, selur óþörf lyf eða aðgerðir í þeim einum tilgangi að auðga sjálfan sig. Það má að vísu segja, að þetta sé að nokkru leyti tekið fram í 6. gr. frv. En það er gagnlegt og vel við eigandi að taka þetta nánar fram í þessari gr. Ég legg að vísu ekki mikla áherzlu á þetta. En hinn liðinn er sjálfsagt að láta standa. Vona ég, að hv. d. geti fallizt á það, eins og meiri hl. hennar gerði við síðustu umr.