11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1822 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

35. mál, lækningaleyfi

Bjarni Snæbjörnsson:

Hv. frsm. talað ekki beint á móti brtt. frá öðru sjónarmiði en því, sem og kom fram við 2. umr., að læknunum væri trúandi til að selja verk sín eins dýrt og vera vill. Þegar ætlazt er til, að leitað sé samninga milli landlæknis og stéttarfél. lækna, þá er þó byggt á því, að læknafél. sé ekki svo kröfufrekt, að ekki verði hægt að ná fullu samkomulagi, enda veit ég engin dæmi þess, að læknar okri á verkum sínum, og býst ekki heldur við, að hv. d. telji, að svo sé. Það er villandi, er hv. frsm. sagði, að dauðveikur sjúklingur færi ekki að prútta við lækni sinn. Ég held, að slík ummæli eigi hvergi við. Mér vitanlega tekur læknir sjaldan þóknun fyrir störf sín fyrr en læknishjálp er lokið og sjúklingurinn kominn undan læknishendi hans. Ef brtt. mín verður samþ., þá verður enginn sjúklingur skyldur að borga meira en þennan taxta. Annað mál er það, að ef sjúklingurinn sjálfur álítur þá hjálp, sem læknirinn hefir veitt honum, meira virði en taxtinn segir, þá er honum heimilt að gera það. Og læknirinn getur líka verðlagt sín verk meira en sagt er fyrir í þessum þrönga taxta, ef hann hefir eytt óvenjulega miklum tíma vegna sjúklingsins, eins og oft kemur fyrir. Einkum á þetta þó við um sérfræðinga. Mér finnst óviðkunnanlegt, að þingið, sem ekki hefir fulla þekkingu til að dæma um þetta, sé að setja taxta. Þetta á að vera ákveðið eftir samkomulagi milli viðkomandi sérfræðinga og landlæknis, og er hér ekki farið fram á annað en að halda þeim ákvæðum, sem voru í síðustu gjaldskrá.

Þá vil ég segja, að ef nauðsynlegt þykir, að 4. málsgr. 15. gr. standi, vegna þess að hún sé til skýringar á 6. gr. frv., þá megi halda áfram út í það endalausa að búa til skýringargr. við aðrar gr. frv. og skýringargr. við skýringargr. o. s. frv. Ég tel réttara, að samþ. verði, að felld sé niður 4. málsgr. 15. gr., því allt, sem í henni stendur, er áður tekið fram í 6. gr. frv.