14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

35. mál, lækningaleyfi

Vilmundur Jónsson:

Frv. má heita óbreytt frá því að það lá fyrir d. og var samþ., nema hvað nokkrar orðabreyt. hafa verið gerðar á því, allar eftir ósk minni, og þagga þær ekki í neinu meiningu þess.

Um leið ætla ég að taka það fram, vegna þess, að ég hefi orðið var við, að 11. gr. frv., þar sem um er að ræða skyldur lækna til að afstýra hættu af sjúklingum sínum, hefir verið túlkuð þannig af sumum, bæði utan þings og innan, sem skyldurnar væru miklu víðtækari en mín meining hefir nokkurntíma verið sem flm. Það er ekki tilætlunin, að læknar eigi að vera nein lögregla og því síður njósnarar um menn almennt. Sú skylda, sem lögð er á þá með þessari gr. frv., er aðeins bundin við læknisstörf þeirra og þeirra eigin verkahring, þeirra eigin sjúklinga. Ef þeir komast að því vegna starfsemi sinnar sem læknar, að heilsufari manns sé þannig háttað, að hætta stafi af, þá er þeim skylt að reyna að afstýra hættunni. En þessi skylda er því aðeins lögð á þá, að um mjög augljósa og alvarlega hættu sé að ræða, beina lífshættu eða yfirvofandi heilsutjón eins og það er orðað í gr. frv. Og vitanlega er hér aðeins átt við hættur í sambandi við sjúkdóm viðkomandi. Annað snertir ekki sérstaklega starfsemi lækna.

Ég vil nefna dæmi, svo betur verði skilið, hve víðtæk ákvæði gr. eru að mínum dómi, og hver takmörk þau hljóta að hafa. Ef læknir kemst t. d. að því við skólaskoðun, að smitandi berklaveikur kennari stundar kennslu, þá er hann vitanlega skyldugur til að leitast við að afstýra þeirri hættu, sem af því getur stafað. Sama skylda hvílir á honum, ef bílstjóri vitjar hans og hann kemst að því, að hann hefir ekki þá sjón, sem krafizt er af bílstjórum. En ef lækni virðist kennari, sem hann mætir á götu, vera fölleitur og berklaveikislegur, eða bílstj., sem hann sér stýra bíl, vera tortryggilega næsýnn, þá ber honum engin læknisskylda til að skipta sér af því. Hver kann að vera hans almenna borgaralega skylda eða siðferðilega skylda kemur þessu máli ekki við. En gæta verður hann sín sem læknir að fara varlega í afskiptaseminni vegna ákvæða 7. og 18. gr. Ég vildi taka þetta fram, því að vel má vera, að það geti haft þýðingu síðar, ef til malaferla kæmi, hver skilningur flm. hefir verið á þessu þýðingarmikla atriði.