03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þ.m. Seyðf. er alltaf að tala um, hvað ég hafi sagt um fyrirætlanir fráfarandi stj., ef fjárlfrv. hefði verið fellt á þessu þingi. Það, sem ég sagði, var þetta, að stj. hefði orðið að fara eftir bráðabirgðafjárl., ef engin fjárl. hefðu fengizt samþ. En ef til vill er það afsökun fyrir hv. hm., að hann virðist ekki geta hugsað sér aðra stj. en þá fráfarandi, sem hann og flokksmenn hans studdu. En ef fjárlög hefðu verið felld, þá sé ég ekki annað ráð en þetta fyrir neina stj. Vitanlega er hér aðeins um mitt persónulega álit að ræða, en ekki neina yfirlýsingu frá hálfu míns flokks eða hæstv. stj., enda hefi ég ekkert umboð til að lýsa afstöðu hennar í þessu efni. Þetta hjal hv. þm. er því aðeins út í loftið. Ásökunum þeim, sem hann hefir varpað fram til stj. í þessu sambandi, ætti hann miklu fremur að stefna til sjálfs sín. Ég talaði ekki um hótanir hv. jafnaðarmanna um að fella fjárl., heldur um mótstöðu þeirra gegn tekjuaukalögunum. Það er auðséð, að hv. þm. vantar umtalsefni; þess vegna gerir hann mér sjálfur upp orð, sem ég hefi aldrei talað, og rifst svo út af þeim.

Hv. þm. talaði hæðilega um, hvað ég væri fljótur að skipta um skoðun á hv. 2. þm. Skagf., sem ég nú veitti stuðning til stjórnarstarfa, en hefði iður verið mjög mótfallinn. Ég skal fúslega játa, að ég geri það ekki með ánægju að veita hv. 2. þm. Skagf. stuðning sem ráðherra. En ég vil heldur stuðla að því, að samvinna takist á milli framsóknar- og sjálfstæðisflokkanna heldur en að hv. jafnaðarmenn fái tækifæri til að leggja allt í flag. þessa afstöðu mína mætti fremur skilja sem mælikvarða um óendanlega fyrirlitningu manna á framkomu jafnaðarmanna. (Forseti hringir). Ég vinn það frekar til að ganga til samvinnu við höfuðandstæðinga mína í þjóðmálum til þess að jafnaðarmenn fái ekki aðstöðu til að vinna sín ófremdarverk.

Þá sagði hv. þm. Seyðf., að tekjuaukalögin fellu ekki úr gildi fyrr en í lok þessa árs. En hv. þm. veit, að sum af hinum nýju tekjuaukafrv., sem liggja fyrir þinginu, koma til framkvæmda nú þegar á þessu ári, svo sem bifreiðaskatturinn og 25% viðbótartekjuskatturinn. Það eru hvorttveggja nýjar viðbótartekjur, sem eiga að hjálpa til þess að bæta fjárhagsafkomu ríkissjóðs á þessu ári, og gefa betri vonir um, að hægt verði að framkvæma núgildandi fjárlög.

Hv. þm. má gjarnan gera mér upp orð, er hann svo notar sem tilefni til að rifast um, en ég ætla ekki að elta ólar við þær fjarstæður, sem koma úr hans frjóva heila.