15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Einar Arnórsson):

Eins og ég skýrði frá við 1. umr. þessa máls, eru ákvæði 1. gr. þessa frv. ekki viðunandi, og hefi ég því flutt brtt. á þskj. 241, um að 1. gr. frv. orðist eins og þar segir: að Reykjavíkurhöfn takmarkast landmegin af strandlengjunni frá vesturtakmörkum lögsagnarumdæmis Reykjavíkur og til Geldinganess að austan, að undanskildum Grafarvogi og netlögum fyrir landi Grafar og Keldna. Sjávarmegin nær Reykjavíkurhöfn að netlögum eyja þeirra, er að henni liggja, Engeyjar og Viðeyjar, og eigi eru í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Svo tekur og höfnin yfir skipalægi við strandlengju lögsagnarumdæmis Reykjavíkur við Skerjafjörð.

Eigendur Grafarholts hafa sent erindi til Alþingis, þar sem þeir bera sig upp undan ákvæðum 1. gr. frv. — En með brtt. minni við þá gr. er ekki gengið á rétt nokkurs manns, sem land á að hinu tiltekna hafnarsvæði Rvíkur, og vona ég því, að hv. þd. geti fallizt á hana með allshn. Allshn. hefir borið þessa brtt. undir þá 2 menn í þd., sem ætla má, að hafi næmast auga fyrir þessu, hv. þm. G.-K. og hv. þm. Mýr., og álitu þeir, að það væri ekkert því til fyrirstöðu, að frv. yrði samþ. með þessari breyt., sem ég nú hefi gert grein fyrir. Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra nánar nauðsyn þessa máls, það hefi ég áður gert við 1. umr.