15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. Reykv. getur auðvitað kallað það hysteri, eða hvaða nafni, sem hann vill, er þingmenn láta skoðun sína í ljós. Ég vil benda á það, sem ég hefi áður sagt, að með því að þenja höfnina yfir stærra svæði en áður, er verið að auka valdsvið hafnarstj. Rvíkur á kostnað sveitarfélags Mosfellshrepps og Kjósarsýslu, því þótt Reykjavík eigi land þarna, þá veitir það Rvík engan rétt til slíkrar yfirdrottnunar.

En út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að með frv. væri verið að létta byrði af Kjósarsýslu, verð ég að taka það fram, að það munu ekki hafa verið menn úr Kjósarsýslu, sem hafa lagt skipum sínum á Eiðsvík endurgjaldslaust og sennilega í óleyfi og sökkt þeim þar, heldur Rvíkingar. Það stendur því Rvík næst að hirða þessa skipsskrokka án þess að ásælast nokkur réttindi í staðinn.