03.06.1932
Neðri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Ég kæri mig ekki um að fara í langan skollaleik við þennan hv. þm. og væri þó full þörf á að reyna að koma fyrir hann vitinu, þar sem hann hefir svo rækilega bundið fyrir öll sín skilningarvit við umr. í þessari deild.

Að ég taldi Sjálfstæðisflokkinn höfuðandstæðing minn, byggist á því, að hann er sá andstöðuflokkur okkar framsóknarmanna, sem einhver áhrif hefir. Aftur á móti hefir Jafnaðarmannaflokkurinn svo lítil áhrif út af fyrir sig, að það er ómögulegt að reikna hann með. (HG: Og samt setja þeir allt í flag). Þeir vilja gera það og mundu gera það, ef þeir gætu, en sem betur fer geta þeir það ekki einir. En þeir voru á tímabili í samvinnu við hinn andstöðuflokk okkar, og þess vegna lá nærri, að þeir gætu komið þessum skemmdarverkum fram. En nú hefir þessi flokkur séð að sér og gengið til samvinnu við okkur, en á móti þessum hv. jafnaðarmönnum, sem hafa ekki fengið sjónina enn, og því til frekari tryggingar, að þeir sæju ekkert það, sem rétt er eða skynsamlegt í fjárhagsmálum þjóðarinnar, hafa þeir nú vel og vandlega bundið fyrir augun á sér, eins og kemur nú greinilega fram hjá hv. þm. Seyðf.

Ég kalla jafnaðarmenn ekki höfuðandstæðinga mína; ég get ekki valið þeim svo virðulegt nafn. Ekki svo að skilja, að þeir standi skoðun minni neitt nær en sjálfstæðismenn, heldur er það, eins og ég áður sagði, af því, að mér finnst ekki hægt að telja þá með. Þeir geta engin áhrif haft, nema þá í gegnum hina flokkana. En hvar sem þeir hafa unnið með öðrum flokkum, hefir það sýnt sig, að allt þeirra starf hefir orðið til óheilla og bölvunar. Þeir voru á góðum vegi með að eyðileggja starf Framsóknarflokksins, en sem betur fór tókst það ekki. Nú voru þeir komnir með Sjálfstæðisflokkinn undir fallöxina, en hann bjargaði sér í tíma með því að ganga til samvinnu við okkur framsóknarmenn um að vinna að þeim málum, sem helzt mega verða þjóðinni til bjargar á þessum erfiðleikatímum. En jafnaðarmenn hafa ekki séð og vilja ekki sjá nauðsyn þjóðarinnar, og þess vegna standa þeir ennþá utan gátta.