12.05.1932
Efri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

165. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þær breyt., sem þessu frv. er ætlað að gera á gildandi lögum, eru tvennskonar. Annarsvegar er breyt. á ummerkjum hafnarinnar, hinsvegar breyt. á stj. hafnarmálanna, að vísu ekki stórvægileg.

Eins og kunnugt er, hefir Skildinganes nú verið lagt undir Rvíkurbæ, og af því leiðir, að gera þarf breyt. á ummerkjum hafnarinnar. Hún hefir hingað til takmarkazt að vestanverðu af Eiðsgranda, en að austan af Elliðaárósum. Síðan þau ummerki voru ákveðin, hefir lögsagnarumdæmið verið fært út, þegar Árbær og Ártún voru lögð undir bæinn, og þykir því rétt að færa höfnina út samsvarandi. En það atvikaðist einhvern veginn svo í hv. Nd., að höfnin komst út fyrir þessi takmörk, án þess að sýnilegt sé, að kaupstaðurinn hafi af því nokkra hagsmuni. Ef um það væri að ræða að fara með takmörk hafnarinnar út fyrir takmörk lögsagnarumdæmisins, þá væri sjálfsagt að fara út á Geldinganestá, þannig að Eiðsvík lenti innan hennar. Þar mun vera allgott skipalægi. En eins og frv. nú er, lendir vikin fyrir norðan takmörk hafnarinnar. Í 1. gr. frv. hafa þar að auki slæðzt villur og ambögur. Þar er ein jörð rangnefnd. Þar eru undanskilin höfninni Grafarvogur og netlög fyrir landi Grafar og Keldna, þótt Gröf og Keldur eigi þá alls ekki land að höfninni.

Að þessu athuguðu þótti n. rétt að binda takmörk hafnarinnar við strandlengju lögsagnarumdæmisins, og leggur hún því til að færa takmörkin að austanverðu að Árbæjarhöfða. Með því lendir Elliðaárvogur og Kleppsvík innan hafnarinnar, og má telja það nokkurn kost fyrir hana.

N. þótti rétt að halda þeim tryggingaraðstöfunum viðkomandi eyjunum, sent í frv. eru, og hefir því tekið þær upp óbreyttar. Að sunnanverðu er höfnin á sama hátt takmörkuð við strandlengju lögsagnarumdæmisins og nær svo langt út sem skipalægi getur talizt.

Með 3. gr. frv. er gerð breyt. á stj. hafnarmálanna og miðar að því að koma henni í samræmi við ákvæði gildandi laga um stj. bæjar- og sveitarmálefna. Þar er gert ráð fyrir, að hafnarnefnd verði kosin hlutfallskosningu, og er eðlilegt, að sú aðferð verði höfð um kosningu hennar eins og annara nefnda bæjarstjórnar. Allshn. hefir þótt rétt að taka upp í frv. ákvæði um það, að kjósa megi borgarstjóra og hafnarstjóra formann nefndarinnar, þó ekki hafi þeir atkvæðisrétt þar. Þeir hafa báðir fullt svo góða aðstöðu til að vera formenn þar eins og hinir kosnu nefndarmenn.

Þá er það 4. gr. Þar er það lögfest, sem hingað til hefir verið reglugerðarákvæði, að skipa skuli hafnarstjóra til að annast daglegar framkvæmdir og umsjón hafnarinnar. Það liggur í augum uppi, að annað eins fyrirtæki og Rvíkurhöfn kemst ekki af án þess að hafa fastráðinn yfirmann.

Í 5. gr. er ákvæði til að tryggja nánar en nú er, að eignum hafnarinnar verði aðeins varið í hennar þágu, og að hafnarnefnd hafi vald yfir þeim.

F. h. allshn. vil ég eindregið mæla með því, að frv. verði samþ. með brtt á þskj. 690.