22.04.1932
Efri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

404. mál, fasteignalánafélög

Jón Baldvinsson:

Ég vil aðeins beina þeirri spurningu til fjhn., hvort nokkuð sé á bak við þetta frv., þ. e. a. s. myndun nokkurs félagsskapar, sem líklegt sé, að taki til starfa, ef frv. verður að lögum. Samskonar hlunnindi og hér er farið fram á voru samþ. fyrir lánsfélag 1928, en þá var fyrir hendi beiðni frá manni eða félagi, sem hafði fé fyrir hendi eða von um það. Ég vildi því spyrja um, hvort nokkuð slíkt lægi fyrir hendi nú. Ég geri ráð fyrir, að litlir möguleikar séu eins og stendur fyrir sölu skuldabréfa slíks félags innanlands, og vildi því spyrja um, hvort horfur væru á slíkri sölu erlendis.

Ég mun ekki leggjast á móti frv., en býst þó við, að ekki sé brýn nauðsyn á lagasetningu sem þessari. Ef enginn félagsskapur stendur á bak við. Hitt er nauðsyn, og hún brýn, að gera veðdeild Landsbankans kleift að starfa og veita 1. veðréttar lán og stuðla að því, að menn geti komið veðdeildarbréfum í peninga án þess að sæta afarkjörum. Nú munu bréf þessi ganga kaupum og sölum undir 70% af nafnverði. Ég teldi rétt, áður en frv. Þetta verður samþ. að athuga þá möguleika, hvort ekki sé hægt að láta veðdeild Landsbankans starfa svo, að að fullu gagni komi. Mér hefir verið sagt, að Landsbankinn hafi keypt veðdeildarbréf fyrir vissa fúlgu á mánuði fram á síðasta ár. Síðan bankinn kippti að sér hendinni hafa bréfin stórhrapað í verði, til stórtjóns fyrir alla þá, sem byggja, og afleiðingin er sú, að húsaleigan helzt jafnhá og áður, þótt eitthvað sé byggt.