14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Landbn. mælir einhuga með því, að þetta frv. á þskj. 294 verði samþ. Það er eins og hv. þdm. vita og hæstv. forsrh. tók fram við 1. umr. þessa mál, að saltkjötsmarkaður okkar er í voða. Á undananförnum árum hefir nær allt okkar saltkjöt verið selt til Noregs, en nú er útlit fyrir, að sá markaður geti e. t. v. lokazt á næstu árum. Að vísu er það svo svo, að þeir, sem kunnugastir eru þessu máli, gera sér vonir um, að a. m. k. í náinni framtíð muni verða hægt að selja eitthvað ofurlítið af íslenzku kjöti í Noregi fyrir sæmilegt verð, en þó því aðeins, að framboðið sé mjög takmarkað. Verður því að létta á saltkjötsmarkaðinum á næstu árum, og það mikið. Ástandið er þannig nú, að af 250 þús. skrokkum, sem út eru fluttir árlega, er aðeins hægt að frysta 100 þús. í þeim frystihúsum, sem til eru nú. Nokkuð fleiri skrokka mætti e. t. v. frysta, ef við hefðum fleiri en eitt skip til að flytja frysta kjötið út, en nú höfum við aðeins Brúarfoss einan til þess. Það eru því um 150 þús. skrokkar, sem salta þarf niður. Nú hefir verið undirbúningur að því að reyna að byggja 3 ný frystihús á þessu ári, þrátt fyrir alla erfiðleikana. Og það má ekki láta sitja við það; fleiri frystihúsum verður að koma upp á allra næstu árum. N. álítur því sjálfsagt að veita ríkisábyrgð fyrir lánum til þessara húsa, ef það gæti orðið til þess, að þau kæmust fyrr upp.

Ég sé ekki ástæðu til að halda hér langa framsöguræðu. N. leggur til, að frv. sé samþ. óbreytt að öðru leyti en því, að hún gerir till. um lítilsháttar orðabreyt. á 2. gr. Þar er ekki um neina efnisbreyt. að ræða, svo ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um hana. Okkur þykir t. d. viðkunnanlegra, að í staðinn fyrir „stjórnarráðið“ komi „atvinnumálaráðuneytið“, sem þetta vitanlega heyrir undir. Einnig er tekið fram í frv., að það þurfi ábyrgð hlutaðeigandi sýslunefndar sem baktryggingu fyrir þessum lánum. Þetta er tæplega rétt orðað, því auðvitað er það ábyrgð sýslufélagsins, sem átt er við, þó sýslunefndin veiti hana að vísu fyrir sýslunnar hönd.

Landbn. væntir þess, að hv. d. fallist á að samþ. frv. eins og það liggur fyrir með þessum smávægilegu orðabreyt.