13.05.1932
Efri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

sFrsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Eins og mönnum er kunnugt, hefir norski saltkjötsmarkaðurinn, sem hefir verið aðalkjötmarkaður okkar á síðari árum, spillzt stórum í seinni tíð frá því, sem áður hefir verið. Aftur á móti hefir reynslan sýnt það, að markaðurinn fyrir frosna kjötið, sem við erum farnir að flytja ú á síðustu árum, er miklu öruggari, auk þess sem við þannig fáum allmiklu meira verð fyrir kjötið, og hefir þó þessi verðmunur aldrei komið skýrar fram en einmitt nú. Síðastl. haust voru fluttir út 93 þús. skrokkar af frosnu kjöti, og seldust þeir við sæmilegu verði, eftir því sem nú er talið, þannig, að við hofum grætt allt að 1/2 millj. kr. á því að senda kjötið út frosið á móts við að flytja það út saltað, miðað við það verð, sem fengizt hefir fyrir það af saltkjötinu, sem selzt hefir, og horfurnar um verð á því óselda. Það skiptir því ekki litlu máli fyrir þjóðina að geta flutt sem mest að kjötinu út frosið, auk þess sem horfurnar um saltkjötsmarkaðinn eru nú ískyggilegri en nokkru sinni áður, þó að nú vofir yfir, að Norðmenn skelli kjöttollinum á með öllum sínum þunga, sem mundi hafa þær afleiðingar, að tollurinn hækkaði úr 28–29 aur. pr. kíló upp í 54–55 aur. pr. kíló, og væri hið sama og að loka markaðinum í Noregi fyrir okkur. Af þessum ástæðum er okkur hin brýnasta nauðsyn að hefjast handa um að auka útflutninginn á kjötinu frosnu. Eins og er flytjum við lítið eitt meira en helming út af frosnu kjöti á móts við það, sem við gætum flutt út. Ég hefi ekki kynnt mér það, hve mikið af kjöti var saltað í haust, en S. Í. S. lét salta 15 þús. tunnur, og í höndum þess er meginið af allri kjötverzluninni, eins og kunnugt er. Ég býst að vísu ekki við því, að hægt verði að flytja kjötið allt út frosið, enda er það ekki allt hæft til frystingar, en þessi tala, sem ég nefndi, bendir þó til þess, að við gætum flutt út allmiklu meira af frosnu kjöti en við enn gerum, en til þess að það megi takast, verður að koma upp fleiri frystihúsum, því að allmargar hafnir, sem raða yfir miklu kjötmagni, eru enn frystihúslausar. Sem dæmi vil ég einkum nefna Djúpavog, Vopnafjörð, Þórshöfn, Borðeyri, Hólmavík, Búðardal og Stykkishólm. Á öllum þessum höfnum er hin brýnasta þörf á að koma upp frystihúsum. Hinsvegar er svo komið fjárhagsástæðum bæði einstaklinga og fyrirtækja, hvort sem eru kaupfélög eða sláturfélög, að þau geta ekki reist frystihúsin af eigin rammleik eingöngu, en verða að fá lán til þess. Á sumum þessum stöðum hagar að vísu svo til, að á þeim eru hús, sem breyta má með tiltölulega litlum kostnaði og koma frystivélum fyrir í, og léttir þetta auðvitað undir, ekki sízt, ef komast mætti að góðum samningum við þá, sem frystivélar selja, og fá vélarnar með einhverjum gjaldfresti, en engu að síður verður það þó óumflýjanlegt að taka lán til þess að koma frystihúsunum upp. Síðan viðlagasjóður gekk yfir til Búnaðarbankans, er sú leið lokuð að fá lán úr honum til frystihúsanna, eins og áður var hægt samkv. ráðstöfun þingsins, og er því ekki annað að gera en að heimila stj. að ábyrgjast lán, sem tekið yrði í þessu skyni. Vil ég geta þess, að gert er ráð fyrir, að stj. sjái svo um, að frystihúsin yrðu reist á sem heppilegustum stöðum, og að öllum sauðfjáreigendum héraðsins sé tryggður jafn aðgangur að þeim.

Hér er um svo mikið fjárhagsspursmál og atvinnuspursmál að ræða fyrir þjóðina, að ég vona, að hv. d. sjái sér fært að fylgja þessu máli, og ég lifi í þeirri von, að þegar á þessu ári verði reist nokkur frystihús á heim stöðum, þar sem þörfin er mest.