14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Pétur Magnússon:

Frv. Þetta á eins og kunnugt er að veita stj. heimild til að ábyrgjast allt að 400 þús. kr. lán, sem varið sé til frystihúsbygginga á kjötútflutningshöfnum. Er svo ráð fyrir gert, að áábyrgð þessi nái til þeirra lána, sem tekin verða af sýslufélögum eða samvinnufélögum í þessum ákveðna tilgangi. Ábyrgð slík sem þessi hefir alloft áður verið gefin af ríkinu, og hafa það þá í flestum tilfellum verið samvinnufélög í viðkomandi héruðum, sem lánin hafa tekið og fengið ábyrgðina. Samvinnufélögin geta hinsvegar verið með tvennu móti, annaðhvort framleiðendafélög eða neytendafélög — kaupfélög.

Ef framleiðendafélög eru stofnuð til þess að byggja frystihús, þá má búast við, að allir framleiðendur í héraðinu hafi jafna aðstöðu til þess að njóta frystihússins. En sé um kaupfélög að ræða, getur í allmörgum tilfellum orðið misrétti núlli þeirra framleiðenda, sem eru í kaupfélögunum, og hinna, er utan við félögin standa. Utanfélagsmenn hafa ekki notið þeirra hagsbóta, sem frystihúsin veita, og hafa því í mörgum tilfellum nauðugir viljugir orðið að ganga í félögin.

Þar sem ríkið styrkir frystihúsbyggingarnar að verulegan hátt með hárri ábyrgð, þá sýnist ekki réttlátt, að hlunnindi þau, sem frystihúsin veita, séu bundin því skilyrði, að framleiðandi gangi í ákveðinn félagsskap til þess að njóta þeirra og taka á sig félagslegar skyldur, sem eru óviðkomandi starfi frystihúsanna. Þess vegna hefi ég leyft mér að bera fram brtt. við 2. gr. frv., l. málsgr., sem gengur út á það að tryggja öllum kjötframleiðendum á félagssvæðinu jafnan rétt til afnota af frystihúsinu.

Ég hirði ekki um að setja neinar reglur í lögin um það, hvernig þetta ákvæði verði framkvæmt, en ætlast til, að viðkomandi sýslunefnd geri það á hverjum stað. Ég ætla, að ekki verði erfitt að koma skipulagi á þetta mál. Ég ætla, að kaupfélögin skiptist í deildir, viðast eftir hreppum, og það muni því vera mjög auðvelt fyrir deildarstj. hverrar deildar að taka utanfélagsmennina á sínu starfssvæði með, þegar hann gerir skýrslu um innlegg sinna deildarmanna. Þessar till. eiga því að tryggja hlutfallslegt jafnrétti öllum viðkomandi héraðsbúum til þess að verða aðnjótandi þeirra hlunninda, sem þessum lögum er ætlað að veita. Vænti ég þess vegna, að hv. dm. telji brtt. þessa sanngjarna og fallist á að samþ. hana.