14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

294. mál, frystihús á kjötútflutningshöfnum

Einar Árnason [óyfirl.]:

Eins og öllum er kunnugt, hafa öll þau frystihús, sem reist hafa verið til þess að frysta kjöt hér á landi á síðari árum, verið reist af samvinnufélögum bænda, og ég býst við, að gera megi ráð fyrir, að þau hús, sem framvegis verða reist í sama tilgangi, verði sömuleiðis reist af samskonar félögum. Ég sé því ekki, að komið geti til nokkurra mala, að hús, sem þau félög byggja og reka, geti verið til afnota hverjum, sem sýnist. Ef slíkt ákvæði verður sett inn í þessi heimildarlög, þá verður það blátt áfram til þess, að heimildin verður ekki notuð, og samvinnufélögin munu heldur reyna að bjargast af á eigin spýtur.

Ég veit til þess, að þegar er í ráði að byggja 3 frystihús á næsta vori til þess að frysta kjöt, en ef á að setja þeim félögum, sem ætla að byggja, það skilyrði, að hver og einn megi nota húsin, hvort sem hann er í því félagi, sem á húsið, eða ekki, þá verður það til þess, að félögin, sem ætla að byggja, munu alls ekki vinna til að nota heimildina. Annars býst ég við, að þessi brtt. sé komin fram vegna ókunnugleika hv. flm. hennar. Því er nú svo háttað með slátrunina á hverju hausti, að hún verður öll að skipuleggjast fyrirfram, svo að engu má skeika. Það getur því ekki komið til mala, að utanfélagsmenn geti hvenær sem er komið með fé í sláturhús kaupfélagsins og kjöt í frystihúsið. (JónÞ: Það á að koma fullt gjald fyrir). Þó fullt gjald komi fyrir, það er annað mál, áætlun félagsins má ekki raskast. Hitt er sjálfsagt, að lána utanfélagsmönnum frystihúspláss, þegar félagsmenn þurfa ekki á því að halda, en jafnan rétt félagsmönnum, sem bera byrðarnar af stofnun og rekstri frystihússins, geta þeir auðvitað ekki fengið. Ég verð því ákveðið að leggja á móti þessari brtt. og tel lítið gagn að heimildinni, ef brtt. verður samþ.